Innlent

Thomas Møller Olsen kominn til Danmerkur

Andri Eysteinsson skrifar
Thomas Møller Olsen í Landsrétti.
Thomas Møller Olsen í Landsrétti. Vísir/Vilhelm

Grænlenski skipverjinn Thomas Møller Olsen, sem dæmdur var í 19 ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur þann 14. janúar 2017, hefur verið fluttur úr landi og til Danmerkur eftir að leyfi fyrir flutningunum fékkst frá dönskum yfirvöldum. Björgvin Jónsson, verjandi Thomasar staðfestir þetta í samtali við fréttastofu RÚV.

Í frétt RÚV segir að Thomas Møller hafi verið fluttur úr landi í almennu farþegaflugi í hand- og fótajárnum og í fylgd lögreglu. Leyfi fyrir flutningunum hafi fengist frá Danmörku 1. október síðastliðinn og var sakborningurinn fluttur úr landi þremur dögum síðar.

Björgvin segir í samtali við RÚV að skjólstæðingur sinn sé nú vistaður í stærsta fangelsi Danmerkur, Vestre í Kaupmannahöfn. Ekki liggur fyrir hvort hann muni afplána refsingu sína alfarið í Vestre.

Í nóvember síðastliðinn var Thomas Møller Olsen dæmdur í 19 ára fangelsi í Landsrétti fyrir að hafa orðið Birnu Brjánsdóttur að bana í janúar 2017. Var niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness því staðfestur. Sótt var um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar en beiðninni var hafnað af Hæstarétti 28. febrúar síðastliðinn og lauk því ferli málsins í íslensku réttarkerfi.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.