Innlent

Thomas Møller fær ekki að áfrýja til Hæstaréttar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Thomas Møller Olsen í Landsrétti.
Thomas Møller Olsen í Landsrétti. Vísir/Vilhelm
Hæstiréttur hafnaði í dag áfrýjunarbeiðni Thomasar Møller Olsen, sem var dæmdur í nítján ára fangelsi fyrir morðið á Birnu Brjánsdóttur og stórfellt fíkniefnabrot. Lögmaður Thomasar hafði óskað eftir leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar í málinu til Hæstaréttar. Synjunin þýðir að máli Thomasar er lokið.Dómur yfir Thomasi féll í Landsrétti í nóvember í fyrra og var þar með staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjaness. Björgvin Jónsson, verjandi Thomasar, óskaði eftir því í kjölfarið fyrir hönd skjólstæðings síns að dómi Landsréttar yrði áfrýjað.Beiðni Björgvins var byggð á því að málsmeðferð fyrir Landsrétti hefði verið stórlega ábótavant og brotið í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu. Vísað var til þess að einn af dómendum í málinu fyrir Landsrétti hefði verið vanhæfur til að leysa úr málinu.Að auki taldi Björgvin að niðurstaða Landsréttar um réttarfarslegar afleiðingar handtöku leyfisbeiðanda utan íslenskrar refsilögsögu „sé bersýnilega röng og í andstöðu við dómaframkvæmd Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu“. Þá hafi mat Landsréttar á sönnunargildi annarra gagna málsins en munnlegum framburði ekki verið í samræmi við þær reglur sem gildi við meðferð sakamála.Í ákvörðun Hæstaréttar segir að ekki verði séð að úrslit málsins geti ráðist af atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau. Var beiðninni því hafnað. Máli Thomasar Møller er þar með lokið og mun hann afplána refsingu sína.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.