Innlent

Aðgengi fyrir fatlaða í Viðey verulega ábótavant: „Óþolandi misrétti“

Nadine Guðrún Yaghi og Vésteinn Örn Pétursson skrifa
Guðjón Sigurðsson er formaður MND-félagsins.
Guðjón Sigurðsson er formaður MND-félagsins. Vísir/Stöð 2

Aðgengi fyrir fatlaða í Viðey er verulega ábótavant að sögn Guðjóns Sigurðssonar, formanns MND-félagsins. Sjálfur styðst Guðjón við hjólastól.

„Það bara er ófært þangað fyrir fólk í hjólastól,“ sagði Guðjón í hádegisfréttum Bylgjunnar fyrr í dag.

Aðstæður við bryggjuna séu mjög slæmar.

„Það er bara engin búnaður, hvorki til að taka okkur í ferjuna eða upp úr ferju eða niður í ferju.“

Á heimasíðu Viðeyjar segir að á eynni sé stígur að Viðeyjarnausti og Friðarsúlunni sem sé fær öllum hjólastólum. Guðjón segir að það breyti engu.

„Það er ómögulegt fyrir mig að komast að bryggjunni upp í eyju eins og er,“ segir Guðjón.

Guðjón segist margoft hafa fundað með ráðamönnum Faxaflóahafna og borgarinnar um lausnir á aðgengi fyrir hjólastóla. Endalaust sé lofað en ekkert sé gert.

„[Viðey] er svona útivistarparadís Reykvíkinga segja þeir en útiloka svo ákveðinn hóp frá notkun. En þetta er ekkert nýtt.“

Guðjón segist lengi hafa reynt að vekja athygli á aðgengismálum.

Hann nefnir sem dæmi að hann hafi ekki geta tekið þátt í viðburði í Viðey á dögunum þegar friðarsúlan var tendruð.

„Þetta er bara höfnun og óþolandi misrétti sem þeir beita ef það hentar þeim,“ segir Guðjón.

Lítið breyst á fimm árum

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Guðjón bendir á lélegt aðgengi fyrir þá sem styðjast við hjólastóla í Viðey.

Í nóvember 2014 fjallaði Vísir um málið þar sem Guðjón, ásamt Arnari Helga Lárussyni, formanni SEM-samtakanna, vakti máls á sama máli. Lítið virðist þó hafa breyst síðan þá, þar sem ástandið er óbreytt, rétt tæpum fimm árum síðar.

Viðtalið við Guðjón í hádegisfréttum Bylgjunnar má heyra hér að neðan.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.