Innlent

Engin leið að komast á hjólastól út í Viðey

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Guðjón og Arnar komast ekki í Viðey því aðgengi fyrir hjólastóla er slæmt.
Guðjón og Arnar komast ekki í Viðey því aðgengi fyrir hjólastóla er slæmt. Fréttablaðið/GVA
„Þetta er gott dæmi um útilokun okkar úr samfélaginu,“ segir Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins. Afar erfitt er að komast til Viðeyjar í hjólastólum. Þeir sem eru í þyngri hjólastólum komast ekki út í eyna.

„Reykjavíkurborg stendur fyrir alls konar viðburðum þarna sem okkur í hjólastól er útilokað að sækja. Höfuðborgin er að útiloka hjólastólanotendur frá heimsókn á þennan sögufræga stað og það er skítt,“ segir Guðjón.

Arnar Helgi Lárusson, formaður SEM samtakanna, og Guðjón segja aðstöðuna til skammar.

„Það fór ægilega í taugarnar á mér þegar Yoko Ono bauð öllum nema okkur hjólastólafólki út í Viðey þegar hún tendraði friðarsúluna. Það var engin leið fyrir okkur sem erum í hjólastólum að komast þangað,“ segir Guðjón.

„Aðgengið er alls ekki nógu gott en við höfum hjálpað þeim sem hægt er að hjálpa í hjólastólum út í eyju,“ segir Guðlaugur Ottesen Karlsson ferjumaður hjá Eldingu. Þótt vilji sé til að bæta aðstöðuna sé það dýrt. „Við förum ekki í að breyta bátunum okkar fyrir mörg hundruð þúsund fyrr en það er búið að breyta aðstæðum á bryggjunni og í eyjunni sjálfri.“

Guðjón segist margoft hafa bent á ódýrari og auðveldari lausnir. „Til dæmis væri hægt að setja hvíldarpall í stigann niður á bryggjuna og minnka hallann. Síðan gera ferjuna aðgengilegri með rampi. Það má örugglega leysa margt í Viðey með römpum í stað stiga.“

Að sögn Gísla Gíslasonar hafnarstjóra er ekki von á því að aðstaðan í Viðey verði bætt í nánustu framtíð. Leiðir til þess séu of kostnaðarsamar og erfiðar.

„Það er fjárhagslega óraunhæft eins og sakir standa. Aðstaðan í lendingunni út í Viðey er mjög erfið og hreyfihamlaðir þurfa á aðstoð að halda til þess að komast í land. Það eru ekki aðstæður í Viðey til þess að setja upp fastan búnað sem þýddi að rafmagnshjólastólar gætu ekki farið frá borði aðstoðarlaust,“ segir hafnarstjórinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×