Erlent

„Van­hugsað“ að refsa trú­fé­lögum fyrir mis­munun gegn hin­segin fólki

Sylvía Hall skrifar
Buttigieg hefur vakið mikla athygli í kosningabaráttu sinni.
Buttigieg hefur vakið mikla athygli í kosningabaráttu sinni. Vísir/Getty
Í pallborðsumræðum CNN um réttindi hinsegin fólks sagðist Beto O‘Rourke, einn frambjóðenda í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2020, að þau trúfélög sem ekki myndu ráða hinsegin fólk né veita þeim þjónustu ættu ekki að vera undanþegin skatti líkt og hefur gilt um trúfélög í Bandaríkjunum. Einn mótframbjóðenda hans, Pete Buttigieg, er ósammála þeirri nálgun.

Buttigieg er eini samkynhneigði frambjóðandinn í forvali Demókrataflokksins og hefur verið opinskár með upplifun sína að vera samkynhneigður maður, bæði hafandi alist upp í íhaldssömu fylki og að hafa þjónað í hernum. Hann er þó ósammála nálgun O‘Rourke í þessum efnum og telur þetta ekki réttu leiðina til þess að standa vörð um réttindi hinsegin fólks.

„Ég er sammála því að lög sem kveða á um bann við mismunun skuli gilda um allar stofnanir, en sú hugmynd að kirkjur verði ekki undanþegnar skatti ef þau hafa ekki fundið það í sér að leggja blessun sína yfir samkynja hjónabönd – ég held hann hafi ekki áttað sig á hvað felst í því sem hann er að leggja til,“ sagði Buttigieg í viðtali við CNN.

Hann segir slíkar aðgerðir vera hálfgerða stríðsyfirlýsingu, ekki einungis gegn kirkjum heldur moskum og öðrum stofnunum sem hafi ekki sömu lífskoðanir. Vegna aðskilnaðar ríkis og trúfélaga myndu slíkar aðgerðir ekki einungis beinast gegn kirkjunni.

Þrátt fyrir þetta styður Buttigieg lagasetningu sem bannar mismunun gegn hinsegin fólki innan skóla og annarra stofnanna. Hann telur þó slíkt ekki vænlegt til árangurs hjá trúfélögum.

„Ég held að það muni einungis breikka gjánna sem er nú þegar til staðar, á sama tíma og við erum að sjá fleiri og fleiri færast í rétta átt hvað varðar réttindi hinsegin fólks vegna samkenndar og ástvina sinna, sem skiptir mig augljóslega gífurlega miklu máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×