Erlent

Pólitískur and­stæðingur Or­ban nýr borgar­stjóri Búda­pest

Atli Ísleifsson skrifar
Gergely Karacsony er nýr borgarstjóri ungversku höfuðborgarinnar.
Gergely Karacsony er nýr borgarstjóri ungversku höfuðborgarinnar. Getty
Frambjóðandi stjórnarandstöðunnar í Ungverjalandi vann sigur í borgarstjórakosningum í höfuðborginni Búdapest í gær.

Gergely Karacsony vann þar sigur á Istvan Tarlos, sem gegnt hefur embætti borgarstjóra frá árinu 2010 og sem naut stuðnings hægrimannsins og forsætisráðherrans Viktor Orban. Stjórnarandstaðan vann sömuleiðis sigur í meirihluta hverfa höfuðborgarinnar svo hún verður einnig með meirihluta í borgarstjórn.

Sigur hins frjálslynda Karacsony kom nokkuð á óvart og er þetta einn mesti pólitíski ósigur Orban frá því að hann komst til valda árið 2010.

Stjórnarandsstöðuflokkar unnu sigra á fleiri stöðum í landinu og tryggðu sér borgarstjóraembætti í tíu af 23 þeim borgum þar sem slíkar kosningar fóru fram.

Karacsony, sem er vinstrisinnaður og hallur undir Evrópusamstarf, kallaði sigurinn „sögulegan“. „Við munum færa borgina úr tuttugustu öldinni og inn í þá 21. Búdapest verður græn og frjáls. Við munum færa hana aftur til Evrópu.“

Fréttaskýrandi BBC segir að hneykslismál tengt Fidesz-manninum Zsolt Borkai, borgarstjóra Gyor, kunni að hafa skaðað kosningabaráttu Fidesz. Birtust myndir af hinum gifta Borkai á netinu þar sem mátti sjá hann taka þátt í kynsvalli á snekkju í Adríahafi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.