Erlent

Pólitískur and­stæðingur Or­ban nýr borgar­stjóri Búda­pest

Atli Ísleifsson skrifar
Gergely Karacsony er nýr borgarstjóri ungversku höfuðborgarinnar.
Gergely Karacsony er nýr borgarstjóri ungversku höfuðborgarinnar. Getty
Frambjóðandi stjórnarandstöðunnar í Ungverjalandi vann sigur í borgarstjórakosningum í höfuðborginni Búdapest í gær.Gergely Karacsony vann þar sigur á Istvan Tarlos, sem gegnt hefur embætti borgarstjóra frá árinu 2010 og sem naut stuðnings hægrimannsins og forsætisráðherrans Viktor Orban. Stjórnarandstaðan vann sömuleiðis sigur í meirihluta hverfa höfuðborgarinnar svo hún verður einnig með meirihluta í borgarstjórn.Sigur hins frjálslynda Karacsony kom nokkuð á óvart og er þetta einn mesti pólitíski ósigur Orban frá því að hann komst til valda árið 2010.Stjórnarandsstöðuflokkar unnu sigra á fleiri stöðum í landinu og tryggðu sér borgarstjóraembætti í tíu af 23 þeim borgum þar sem slíkar kosningar fóru fram.Karacsony, sem er vinstrisinnaður og hallur undir Evrópusamstarf, kallaði sigurinn „sögulegan“. „Við munum færa borgina úr tuttugustu öldinni og inn í þá 21. Búdapest verður græn og frjáls. Við munum færa hana aftur til Evrópu.“Fréttaskýrandi BBC segir að hneykslismál tengt Fidesz-manninum Zsolt Borkai, borgarstjóra Gyor, kunni að hafa skaðað kosningabaráttu Fidesz. Birtust myndir af hinum gifta Borkai á netinu þar sem mátti sjá hann taka þátt í kynsvalli á snekkju í Adríahafi.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.