Erlent

Kúrdar snúa sér til Assads og Erdogan ósáttur við Evrópuríki

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Stjórnarhermenn í bænum Til Temir í dag.
Stjórnarhermenn í bænum Til Temir í dag. AP/Baderkhan Ahmad
Aðildarríki Evrópusambandsins samþykktu í dag að takmarka útflutning á vopnum til Tyrklands vegna innrásarinnar í Sýrland. Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, brást við á blaðamannafundi og sagði að andstaða við innrásina byggðist á misskilningi. Fundir með leiðtogum Breta og Þjóðverja hafi sýnt að lítill skilningur væri á málstað Tyrkja, en Tyrkir álíta hersveitir Kúrda hryðjuverkasamtök.„Við erum Atlantshafsbandalagsríki. Vinsamlegast hafið í huga að þessi ríki eru það líka. Ég vek athygli á fimmtu grein NATO-samningsins [um að árás á eitt bandalagsríki jafngildi árás á þau öll. Nú stöndum við frammi fyrir þrýstingi og árásum hryðjuverkasamtaka. Með hverjum ættu þessi ríki að standa ef við tökum tillit til fimmtu greinarinnar? Þau ættu að standa með okkur,“ sagði Erdogan.

Stjórnarherinn mættur

Bærinn Til Temir er á yfirráðasvæði Kúrda í norðausturhluta Sýrlands, stutt frá landamærunum að Tyrklandi. Tugir hafa verið fluttir á sjúkrahús í bænum eftir árásir tyrkneska hesrins undanfarna daga.Í dag sýndu sýrlenskir ríkisfjölmiðlar frá því að nú væri stjórnarherinn kominn á vettvang í Til Temir. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2012 sem stjórnarherinn lætur sjá sig á þessum stað. Á þeim tíma ákvað Bashar al-Assad forseti að leyfa Kúrdum að halda svæðinu og var herinn sendur að berjast við uppreisnarmenn á öðrum svæðum.Kúrdar og Assad-stjórnin komust að samkomulagi í gærkvöldi. Bandalagið markar ákveðin kaflaskil fyrir hersveitir Kúrda, sem börðust áður með Bandaríkjunum gegn Íslamska ríkinu. Eftir að Bandaríkin hörfuðu frá Sýrlandi, rýmdu þannig fyrir innrás Tyrkja, hafa Kúrdar nú snúið sér til Assads, sem hefur svo sjálfur notið stuðnings Rússa.

Tengd skjöl
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.