Fótbolti

Anderlecht sektað vegna hins réttindalausa Kompany

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Leikmaður, þjálfari og fyrirliði
Leikmaður, þjálfari og fyrirliði vísir/getty
Belgíska stórveldið Anderlecht hefur verið sektað um 5 þúsund evrur, eða tæpar 700 þúsund krónur, af belgíska knattspyrnusambandinu vegna Vincent Kompany.

Kompany var ráðinn til félagsins sem spilandi þjálfari í maí á þessu ári og var skráður þjálfari í fyrstu leikjum Anderlecht á tímabilinu. Fyrir það er félagið sektað þar sem Kompany hefur ekki tilskilin réttindi til að þjálfa í efstu deild í Belgíu þar sem allir þjálfarar þar þurfa að hafa UEFA Pro.

Til málsvarnar hélt Anderlecht því fram að Simon Davies, sem fylgdi Kompany frá Englandi til Belgíu, væri raunverulegur þjálfari liðsins en belgíska knattspyrnusambandið tók því fálega.

Anderlecht hefur byrjað tímabilið hræðilega og situr í 13.sæti deildarinnar með 9 stig eftir tíu leiki.

Eftir slæma byrjun var tekin ákvörðun um að Kompany myndi einbeita sér að því að vera leikmaður á leikdögum en auk þess að vera spilandi þjálfari er Kompany einnig fyrirliði Anderlecht. Hann meiddist hins vegar í 4.umferð og hefur ekki spilað síðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×