Innlent

Veggur Gentle Giant rifinn

Kristinn Haukur Guðnason skrifar
Steinveggurinn hefur valdið deilu.
Steinveggurinn hefur valdið deilu.
Veggurinn umdeildi sem hvalaskoðunarfélagið Gentle Giants á Húsavík lét byggja hefur verið rifinn að hluta. Enn er reynt að ná samkomulagi um norður- og austurhlið veggsins.

„Sveitarfélagið fékk verktaka til að rífa niður vegginn. Það var búið að krefja lóðarhafa um að fjarlægja vegginn fyrir tveimur mánuðum en því var ekki sinnt. Við munum krefja þá um okkar tilkostnað við verkið,“ segir Gaukur Hjartarson, skipulags- og byggingarfulltrúi Norðurþings. Jafnframt að engin sýnileg andmæli frá Gentle Giants eða öðrum hafi verið á vettvangi þegar niðurrifið hófst.

Spurður um kostnað niðurrifsins segir Gaukur hann ekki liggja fyrir.

Veggurinn var reistur utan lóðamarka Gentle Giants. Gaukur segir að ákveðið hafi verið að rífa vestur- og suðurhliðina vegna þess að þær voru inni á lóð nágranna og á umferðargötu hafnarsvæðisins. Hinir hlutarnir standi í bæjarlandi.

„Við munum leitast eftir samkomulagi um að norður- og austurhlutinn fái að standa áfram,“ segir Gaukur sem kveður norðurhlutann hafa verið færðan í vor eftir viðræður.

Málið hefur staðið yfir frá því í fyrravor þegar veggurinn var reistur. Farið var fram á verkstöðvun og niðurrif veggsins en því ekki sinnt.

Stefán Guðmundsson, stjórnarformaður Gentle Giants, vildi ekki tjá sig um málið.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.