Erlent

Nýr Brexit-samningur í höfn

Atli Ísleifsson skrifar
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands.
Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands. getty
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir að nýr útgöngusamningur milli Bretlands og Evrópusambandsins sé í höfn.

Bresk stjórnvöld og framkvæmdastjórn ESB hafa átt í viðræðum um lagalegan texta, en bæði breska þingið og þing aðildarríkja þurfa að staðfesta samninginn áður en hann öðlast gildi.

Johnson greindi frá samkomulaginu á Twitter-síðu sinni þar sem hann segir samninginn „frábæran“ og að með honum „taki Bretland aftur yfir stjórn“.

DUP, flokkur írskra sambandssinna á breska þinginu sem vörðu stjórn Theresu May falli, lýsti því yfir í morgun að flokkurinn gæti ekki stutt samninginn eins og hann liti út nú. Sú yfirlýsing eigi enn við eftir tilkynningu forsætisráðherrans um að nýr samningur sé í höfn.

Johnson þarf nú að fá breska þingið til að samþykkja samninginn fyrir laugardag, ellegar má gera ráð fyrir að hann muni fara fram á frekari frestun útgöngu. Breska þingið hefur verið kallað til fundar á laugardag.

Jeremy Corby, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur hvatt þingið til að hafna samningnum, sem hann segir verri en þann sem Theresa May, forseti Johnson í starfi, náði í viðræðum sínum við ESB. Má því vera ljóst að það er síður en svo öruggt að breska þingið samþykki samning Johnson.

Helsti ásteytingarsteinninn í viðræðunum hefur snúið að málefnum Norður-Írlands og staða svæðisins eftir Brexit.

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir samninginn vera „sanngjarnan“ og byggi á jafnræði. Hafa bæði Juncker og Johnson hvatt til þess að samningurinn verði samþykktur.





Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í Brexitmálum, segir að samkomulag um varðandi fyrirkomulag á landamærum Írlands og Norður-Írlands hafi náðst.

Felur það í sér að hægt verði að koma í veg fyrir „hörð landamæri“, en á sama tíma viðhalda heilindum innri markaðarins. Sömuleiðis verði Norður-Írland hluti breska tollasvæðisins.



Barnier sagði að ákvæði samningsins um fyrirkomulag á Norður-Írlandi hvíli á fjórum stoðum:

  • Að Evrópureglur verði áfram í gildi á Norður-Írlandi á ákveðnum sviðum, sér í lagi þegar kemur að vöruviðskiptum.
  • Að Norður-Írland verði áfram hluti breska tollasvæðisins, en „verði áfram gátt fyrir innri markað Evrópusambandsins“.
  • Að í gildi verði samningur um að viðhalda heilindum innri markaðarins og þóknast lögmætum óskum breska yfirvalda varðandi virðisaukaskatt.
  • Að fulltrúar á norður-írska þinginu verði gert kleift að ákveða á fjögurra ára frestihvort að Evrópureglur skuli gilda á svæðinu eður ei.


Fréttin hefur verið uppfærð.



Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×