Innlent

Kviknaði í út frá potti á eldavél

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá vettvangi í gær.
Frá vettvangi í gær. Vísir/Egill
Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur leitt í ljós að rekja megi eldsupptök eldsins í fjölbýlishúsi í Suðurhólum í Reykjavík í gær til potts á eldavél. Húsráðendur voru ekki í íbúðinni þegar eldurinn kom upp.

Mikill viðbúnaður var hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu í gær eftir að útkall barst um að eldur væri laus í íbúð í fjölbýlishúsinu. Reykur stóð út um glugga íbúðarinnar þegar slökkvilið kom á vettvang.

Enginn slasaðist alvarlega í eldsvoðanum en einn var fluttur á sjúkradeild með vott af reykeitrun en viðkomandi hafði fylgt íbúum á efstu hæð út úr blokkinni.

Þá náði slökkvilið einnig í fólk sem var fast í íbúð á annarri hæð, þar á meðal var eitt barn. Aðstoðaði slökkvilið einnig íbúa af þriðju og efstu hæð út, sem beðið hafði á svölum eftir slökkviliðinu.

Reykkafarar fóru inn í bygginguna til þess að ná í íbúa og notuðu björgunargrímur þar sem mikill reykur var á stigaganginum. Íbúðin er mikið skemmd og er rannsókn lögreglunnar á brunanum lokið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×