Innlent

Íbúum bjargað úr fjölbýli í Suðurhólum eftir að eldur kviknaði

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Slökkviliðið var kallað út á sjöunda tímanum í kvöld.
Slökkviliðið var kallað út á sjöunda tímanum í kvöld. Vísir/Egill
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út að fjölbýlishúsi í Suðurhólum í Reykjavík á sjöunda tímanum í kvöld. Nokkrir íbúar voru aðstoðaðir við að komast út. 

Eldurinn kviknaði í íbúð á annarri hæð fjölbýlisins og varð þar altjón, reykurinn stóð út um glugga íbúðarinnar þegar slökkvilið kom á vettvang. Enginn var í íbúðinni þegar eldurinn kviknaði og eru eldsupptök ókunn að svo stöddu. Enginn slasaðist alvarlega í eldsvoðanum en einn var fluttur á sjúkradeild með vott af reykeitrun. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafði hann verið að fylgja íbúum á efstu hæð út úr blokkinni.

Samkvæmt fréttamanni okkar á vettvangi náði slökkvilið í íbúa sem var fast í íbúð á annarri hæð, þar á meðal var eitt barn. Aðstoðaði slökkvilið einnig íbúa af þriðju og efstu hæð út, sem beðið hafði á svölum eftir slökkviliðinu. Reykkafarar fóru inn í bygginguna til þess að ná í íbúa og notuðu björgunargrímur þar sem mikill reykur var á stigaganginum. 

Eyþór Leifsson varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu sagði í samtali við fréttastofu um klukkan hálf átta að aðgerðum væri að ljúka á vettvangi. Störf á vettvangi gengu vel og Rauði krossinn sá um að koma íbúum í skjól á meðan slökkvilið var að störfum. 

Fréttin hefur verið uppfærð.

Vísir/Egill
Frá aðgerðum á vettvangi í kvöldVísir/Egill
Vísir/Þráinn
Vísir/KristínG
Vísir/Þráinn
Vísir/Egill
Vísir/Egill
Vísir/Egill



Fleiri fréttir

Sjá meira


×