Erlent

Nýr formaður Venstre dauðþreyttur á átökum innan flokksins

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Jacob Ellemann-Jensen er af mikilli stjórnmálaætt.
Jacob Ellemann-Jensen er af mikilli stjórnmálaætt. Mynd/skjáskot

Jacob Ellemann-Jensen hefur verið kjörinn formaður stjórnmálaflokksins Venstre í Danmörku. Hinn nýi formaður segist vera dauðþreyttur á átökum sem geisað hafa á milli fylkinga innan flokksins.

Boðað var til formannskjös eftir að Lars Løkke Rasmussen sagði af sér formennsku í Venstre fyrir nokkrum vikum. Hann gegndi embætti forsætisráðherra Danmerkur á árunum 2009 til 2011 og aftur 2015 til 2019. Miklar deilur innan flokksins urðu til þess að Løkke Rasmussen sagði af sér.

Ellemann-Jensen var ráðherra umhverfis- og matvælamála í ríkisstjórn Løkke Rasmussen en hann er sonur Uffe Ellemann-Jensen, fyrrverandi utanríkisráðherra Danmerkur.

Í sigurræðu sagði hann að flokksmenn yrðu að láta af deilum sín á milli og sameinast yfir stefnumálum flokksins.

„Ég skal vera hreinskilinn. Ég er dauðþreyttur á stríðinu á milli fylkinganna og því andrúmslofti sem þessu fylgir. Bæði innan þingflokksins sem og innan flokksins,“ sagði Ellemann-Jensen.

Varaði hann við því að ef innanflokksátökum myndi ekki ljúka myndi flokkurinn liðast í sundur og eiga á hættu að missa stöðu sína sem helsti flokkurinn innan bláu blokkarinnar svokölluðu, óformlegu bandalagi hægri flokka í Danmörku.

Elleman-Jensen var einn í framboði og var hann einróma kjörinn. Í frétt DR segir meðal annars að hlátur hafi heyrst í salnum þegar spurt var hvort einhver ætlaði að bjóða sig fram gegn Elleman-Jensen.

Inger Støjberg var einnig kjörinn varaformaður en hún bar sigurorð af Ellen Trane Nørby með 577 atkvæðum gegn 206. Støjberg var fyrrverandi ráðherra innflytjendamála og hefur átt sæti á danska þinginu frá árinu 2001. Í ráðherratíð sinni þótti hún reka harða stefnu í innflytjendamálum.


Tengdar fréttir

Lars Løkke hættir sem formaður Venstre

Lars Løkke Rasmussen, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Venstre-flokksins í Danmörku, tilkynnti í dag að hann hygðist hætta sem formaður flokksinsAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.