Innlent

Forseti Íslands ræddi við háskólanemendur í Nuuk

Kristján Már Unnarsson skrifar
Forsetinn í Háskóla Grænlands í dag.
Forsetinn í Háskóla Grænlands í dag. Mynd/Leiff Josefsen, Sermitsiaq.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, fundaði með Kim Kielsen forsætisráðherra og heimsótti þjóðþing Grænlendinga á öðrum degi formlegrar heimsóknar forsetahjónanna til Grænlands. Þau sitja í kvöld hátíðarkvöldverð í boði forsætisráðherrans í Hans Egede húsinu í Nuuk.

Forsetahjónin í grænlenska þinginu í dag. Guðni ræðir við Vivian Motzfeldt þingforseta en Eliza við Alequ Hammond, fyrrverandi forsætisráðherra.Mynd/Leiff Josefsen, Sermitsiaq.
Eftir lendingu á Nuuk-flugvelli síðdegis í gær var farið í Þjóðminjasafn Grænlands þar sem sjá má forvitnilegar minjar sem tengjast sögu norrænna manna og annarra sem landið hafa byggt. 

Þá sæmdi forsetinn hjónin Benedikte Thorsteinsson, fyrrverandi ráðherra, og Guðmund Þorsteinsson, forstöðumann Kofoeds-skólans, hinni íslensku fálkaorðu fyrir framlag þeirra til samstarfs og vináttu Íslendinga og Grænlendinga, að því er fram kemur í frétt frá forsetaembættinu.

Guðni forseti kominn í gamalkunnugt hlutverk; að ræða við háskólanemendur frá kennarapúltinu.Mynd/Leiff Josefsen, Sermitsiaq.
Forsetahjónin heimsóttu Háskóla Grænlands í dag og ræddu þar við starfsmenn og nemendur. Bakgrunnur Guðna forseta liggur einmitt í háskólasamfélaginu en hann kenndi um árabil sagnfræði við hina ýmsu háskóla, síðast sem prófessor við Háskóla Íslands.

Kaffispjall við forseta grænlenska þingsins, Vivian Motzfeldt. Þorbjörn Jónsson aðalræðismaður og Örnólfur Thorsson forsetaritari eru með forsetahjónunum.Mynd/Leiff Josefsen, Sermitsiaq.
Í þjóðþingi Grænlands, Inatsisartut, átti forsetinn fund með Vivian Motzfeldt þingforseta, fylgdist með störfum þingsins og þáði kaffiveitingar. Forsetafrúin Eliza Reid átti jafnframt fund með umboðsmanni barna á Grænlandi.

Eliza Reid með umboðsmanni barna á Grænlandi.Mynd/Leiff Josefsen, Sermitsiaq.
Á morgun, miðvikudag, er meðal annars áformað að forsetahjónin heimsæki Miðstöð loftslagsrannsókna í Nuuk, Kofoeds skólann og Royal Arctic Line skipafélagið og eigi einnig fund með borgarstjóranum í Nuuk, Charlotte Ludvigsen. 

Heimsókninni lýkur annaðkvöld.

Hér má sjá viðtal við forsetahjónin þegar þau héldu til Grænlands:


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.