Erlent

Jacqu­es Chirac er látinn

Atli Ísleifsson skrifar
Jacques Chirac varð 86 ára gamall.
Jacques Chirac varð 86 ára gamall. Getty
Jacqu­es Chirac, fyrrverandi forseti Frakklands, er látinn, 86 ára að aldri. Frá þessu segir á vef BBC.

Chirac gegndi embætti forseta á árunum 1995 til 2007. Hann leiddi landið á þeim tíma þegar evran var tekin upp í landinu. Í valdatíð sinni stytti hann valdatíma forseta Frakklands úr sjö árum í fimm. Þá var hann áberandi í andstöðunni við innrás hina staðföstu þjóða inn í Írak árið 2003. Á síðustu árum var Chirac hins vegar ítrekað bendlaður við hin ýmsu spillingarmál. 

Það var tengdasonur Chirac sem greindi frá andlátinu þar sem hann sagði forsetann fyrrverandi hafa andast í faðmi fjölskyldu sinnar.

Chirac fæddist í fimmta hverfi Parísar þann 29. nóvember 1932. Hann var fulltrúi Repúblikanaflokksins og gegndi embætti borgarstjóra Parísar á árunum 1977 til 1995, áður en hann tók við embætti forseta. Þá var hann forsætisráðherra Frakklands á árunum 1974 til 1976 og aftur frá 1986 til 1988.

Snemma á stjórnmálaferli sínum gegndi hann embætti ráðherra landbúnaðar- og byggðamála og innanríkismála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×