Erlent

Segir Bandaríkjastjórn hafa boðið afnám þvingana

Kjartan Kjartansson skrifar
Rouhani sagðist í vikunni opinn fyrir öllum viðræðum við Bandaríkjastjórn en ekki fyrr en refsiaðgerðum yrði aflétt.
Rouhani sagðist í vikunni opinn fyrir öllum viðræðum við Bandaríkjastjórn en ekki fyrr en refsiaðgerðum yrði aflétt. AP/Pavel Golovkin
Hassan Rouhani, forseti Írans, fullyrðir að Bandaríkjastjórn hafi boðist til að aflétta öllum refsiaðgerðum gegn landinu í skiptum fyrir viðræður. Honum sé þó ekki ljóst hvaða árangur gæti náðst með slíkum viðræðum.

Ummælin lét Rouhani falla eftir að hann sneri heim til Írans frá allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem fór fram í New York í vikunni. Reuters-fréttastofan hefur eftir Rouhani að Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hafi hvatt hann til að funda með Bandaríkjamönnum.

Fulltrúar Bandaríkjanna hafi sagt „skýrt“ að þeir myndu aflétta öllum refsiaðgerðum gegn Íran. Rouhani sagði að í ljósi refsiaðgerðanna sem eru í gildi og „eitraðs andrúmslofts“ þar sem Bandaríkjastjórn beiti Íran hámarksþrýstingi „getur enginn spáð fyrir um hvernig þessum viðræðum lyki og þær leiddu af sér“.

Í New York útilokaði Rouhani að ræða við Bandaríkjastjórn nema viðskiptaþvingunum yrði aflétt fyrst.

Donald Trump Bandaríkjaforseti dró Bandaríkin út úr kjarnorkusamningi heimsveldanna við Íran sem átti að takmarka kjarnorkuáætlun landsins í fyrra. Í kjölfarið lagði ríkisstjórn hans aftur á refsiaðgerðir sem hafði verið aflétt með samkomulaginu. Síðan þá hefur vaxandi spenna færst í samskipti Bandaríkjanna og Írans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×