Innlent

Umsögn Þjóðleikhúsráðs um umsækjendur liggur fyrir

Birgir Olgeirsson skrifar
Sjö koma til greina sem næsti þjóðleikhússtjóri.
Sjö koma til greina sem næsti þjóðleikhússtjóri. Fréttablaðið/Vilhelm
Þjóðleikhúsráð hefur skilað umsögn sinni um embætti þjóðleikhússtjóra til mennta- og menningarmálaráðherra. RÚV greindi fyrst frá þessu en sjö hafa sótt um stöðuna, þar á meðal núverandi þjóðleikhússtjóri, útvarpsstjóri og borgarleikhússtjóri.

Umsögninni var skilað fyrir helgi en til grundvallar henni eru matsviðmið sem unnin voru af sérfræðingum Capacent sem byggja meðal annars á menntunar- og hæfniskröfum í auglýsingu um embættið. Samkvæmt svari frá upplýsingafulltrúa ráðuneytisins verða þeir sem eru metnir hæfastir boðaðir í framhaldsviðtöl á næstunni. Verður nýr þjóðleikhússtjóri skipaður frá og með áramótum.

Umsækjendurnir sem sóttu um stöðuna eru sjö talsins en þeir eru Ari Matthíasson þjóðleikhússtjóri, Brynhildur Guðjónsdóttir, leikari og leikstjóri, Guðbjörg Gústafsdóttir, Kolbrún K. Halldórsdóttir leikstjóri, Kristín Eysteinsdóttir leikhússtjóri Borgarleikhússins, Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri og Stefán Sturla Sigurjónsson, verkefnastjóri leikari og rithöfundur.

Þá hafa þrettán sótt um stöðu ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins en samkvæmt áætlun ráðuneytisins er búist við að hæfnisnefnd skili greinargerð til ráðherra fyrir mánaðamót. Nýr ráðuneytisstjóri verður skipaður 1. desember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×