Enski boltinn

„Ef þú vissir það ekki þá var Jóhann Berg Guðmundsson einu sinni hjá Chelsea“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jóhann í leik með Burnley gegn Arsenal á dögunum.
Jóhann í leik með Burnley gegn Arsenal á dögunum. Getty
Tölfræðiveitan og fjölmiðillinn Squawka Football birtir athyglisverða grein á vef sínum í morgun þar sem fjallað er um unglingalið Chelsea.

Í greininni er umfjöllunarefnið þeir leikmenn sem hafa hellst úr lestinni í unglingaliðum Chelsea og þar ber að sjá marga þekkta leikmenn.

Jóhann Berg Guðmundsson er í 5. sæti listans og er fyrir neðan Liverpool-manninn Rhian Brewster, Neil Etheridge, Declan Rice og Chris Mepham.

„Hinn 28 ára gamli vængmaður æfði með Chelsea akademíunni en flutti til Íslands árið 2008 eftir að hafa lent í vandræðum með að aðlagast lífinu í ensku höfuðborginni,“ segir meðal annars í umsögninni um Jóhann.

Þar á eftir er farið yfir feril Jóhanns og tölfræði hans bæði hjá AZ Alkmaar í Hollandi og svo Charlton og Burnley á Englandi sem og íslenska landsliðinu.

Patrick van Aanholt, Eddie Nketiah, Nathan Ake, Andy King, Dominic Solanke og Domingos Quina eru einnig á listanum sem má lesa meira um hér.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×