Erlent

Áfangasigri gegn Johnson fagnað

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þótt fundum breska þingsins hafi verið frestað heldur ríkisstjórn Boris Johnson áfram ósigurgöngu sinni. Fyrr í dag tilkynnti Carloway lávarður, æðsti dómari Skotlands, um þá niðurstöðu sína að ákvörðunin um þingfrestun hafi verið ólögleg. Neðri dómstig höfðu áður úrskurðað ríkisstjórninni í vil. Carloway sagðist meðvitaður um þá staðreynd og því byggist hann við því að hæstiréttur myndi taka málið fyrir.

En þótt málinu sé trúlega ekki lokið fögnuðu stjórnarandstæðingar þessum áfangasigri í dag. Joanna Cherry, þingmaður skoska þjóðarflokksins, kallaði eftir því að þing yrði kallað saman á ný. Það vill ríkisstjórnin ekki gera fyrr en niðurstaða hæstaréttar liggur fyrir.

Cherry sagði að þótt ólíklegt sé að niðurstaða komi fyrr en eftir rúma viku sé mikilvægt að kalla þing saman á ný sem fyrst svo mikilvægur tími tapist ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×