Erlent

Ríkisstjórn Trump má beita reglu sem nánast stöðvar hælisumsóknir

Samúel Karl Ólason skrifar
Húsakynni Hæstaréttar Bandaríkjanna.
Húsakynni Hæstaréttar Bandaríkjanna. AP/J. Scott Applewhite

Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórn Donald Trump má beita reglum sem koma munu í veg fyrir að flestir hælisleitendur og farandfólk frá Mið-Ameríku fái hæli eða landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Úrskurður lægra dómstigs hafði komið í veg fyrir að reglurnar tækju gildi á meðan önnur dómsmál vegna þeirra standa yfir.

Samkvæmt reglunum sem um ræðir getur fólk ekki sótt um hæli í Bandaríkjunum, hafi það lagt leið sína í gegnum önnur ríki á leiðinni til Bandaríkjanna án þess að sækja um hæli í einu þeirra ríkja fyrst.

Flestir þeir sem koma að landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó koma frá Mið-Ameríku og þurfa meðal annars að ganga í gegnum Mexíkó. Þar með munu þau ekki geta sótt um hæli eða landvistarleyfi í Bandaríkjunum.

Úrskurður Hæstaréttar þýðir í raun að ríkisstjórnin geti byrjað að framfylgja reglunum en dómsmál um lögmæti reglanna standa enn yfir. Mannréttindasamtök og aðrir aðilar hafa höfðað mál gegn ríkisstjórninni á grundvelli þess að reglurnar séu ekki samræmi við innflytjendalöggjöf Bandaríkjanna. Líklegt þykir að Hæstiréttur muni fjalla aftur um málið þegar meðferð þess lýkur á neðri dómstigum.

Dómararnir Sonia Sotomayor og Ruth Bader Ginsburg gerðu grein fyrir mótstöðu þeirra við niðurstöðu meirihluta dómsins og sögðu ríkisstjórn Trump reyna í „enn eitt sinn“ að fara gegn hefðbundnum venjum og starfsreglum varðandi hælisleitendur og að reglan hafi upprunalega verið sett í gildi án þess að gera íbúum það ljóst og kalla eftir umsögnum, eins og lög segi til um að þurfi að gera.

Metfjöldi fjölskyldna frá Mið-Ameríku hafa sótt um hæli í Bandaríkjunum á undanförnu ári og hefur flestum þeirra verið sleppt innan Bandaríkjanna á meðan beðið er eftir að mál þeirra verði tekin fyrri af innflytjendayfirvöldum. Samkvæmt Washington Post eru um 436 þúsund hælisumsóknir til meðferðar hjá ríkinu.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.