Erlent

Ekkert reist af nýjum veggjum

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Bandaríska landamæragæslan reisir um þessar mundir þrjátíu feta háan vegg, eða rétt rúmlega níu metra, á landamærunum sem skilja að Arizona-ríki Bandaríkjanna og Mexíkó. Veggurinn mun koma til með að vera um átta kílómetra langur og er honum komið fyrir þar sem áður var eldri veggur sem hamlaði för farartækja en ekki fólks.

Og Trump forseti er hvergi nærri hættur. „Hver einasta tomma sem við reisum skiptir miklu máli og við erum að setja upp mílu eftir mílu og við ætlum fyrir fyrir lok næsta árs að vera búin að byggja á milli 400 og 500 mílur. Þetta er alvarlegur veggur. Þetta er alvöru dæmi,“ sagði hann í vikunni.

Áður en Trump tók við embætti voru einhvers konar hindranir á samtals 1050 kílómetra löngu svæði í Bandaríkjunum. Í dag stendur sú tala óbreytt en Trump-stjórnin hefur hins vegar endurnýjað um hundrað kílómetra af hindrunum.

Þá hefur heldur ekki orðið að veruleika loforð Trumps um að Mexíkóar muni greiða fyrir vegginn. Forsetinn hefur aftur á móti tryggt sér milljarða dala fyrir vegginn sem áttu að fara í önnur verkefni.

En Trump fagnaði áfangasigri í nótt þegar hæstiréttur Bandaríkjanna komst að þeirri niðurstöðu að ríkisstjórninni væri heimilt að meina fólki sem kemur að landamærunum við Mexíkó að sækja um hæli í Bandaríkjunum ef viðkomandi reyndi ekki slíkt hið sama í öðrum ríkjum á leið sinni til Bandaríkjanna.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.