Erlent

Stormur stefnir á Bahamaeyjar á ný

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Viðvörun vegna hitabeltisstormsins var gefin út í nótt en samkvæmt bandarísku veðurstofunni er búist við því að stormurinn skelli á norðvesturhluta Bahamaeyja, þar með talinni eynni Abaco sem kom einna verst út úr Dorian.

Hitabeltisstormurinn er hvergi nærri eins öflugur og Dorian, sem taldist fimmta stigs fellibylur þegar hann gekk á land. Ekki er búist við sjávarflóðum vegna stormsins en samkvæmt spám verður úrkoma allt að hundrað millimetrar.

Stormurinn gæti reynst erfið hindrun fyrir það björgunarfólk sem reynir nú að finna og bjarga þeim þrettán hundruð Bahameyingum sem enn er saknað.

Hubert Minnis, forsætisráðherra eyjanna, sagði í nótt frá því að nú væri í undirbúningi dagskrá fyrir dag þjóðarsorgar í landinu. Hann sagði að aðgerðir hingað til hafi gengið út á leit og björgun en nú verði áherslan lögð á enduruppbyggingu og að ná jafnvægi.

Bahameyingar hafa margir reynt að flýja eyðilegginguna og halda til Bandaríkjanna. Þar í landi hefur ríkisstjórnin ákveðið að veita Bahameyingum ekki sömu stöðu og Haítar fengu eftir jarðskjálftann 2010 þegar þeim var leyft að búa og starfa í Bandaríkjunum þar til heimalandið taldist öruggt á ný.


Tengdar fréttir

2.500 á lista týndra á Bahama

Minnst 50 eru látnir og er búist við því þeim muni fjölga en björgunaraðilar eru enn að leita í rústum húsa og braki sem liggur á víð og dreif um eyjarnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×