Innlent

Ferða­menn hætt komnir í Reynis­fjöru í dag

Sylvía Hall skrifar

Mikill öldugangur og vindur var í Reynisfjöru í dag þegar ferðamenn spókuðu sig um í fjörunni. Í myndbandi sjást öldurnar ná töluverðum hæðum áður en þær koma að landi af miklum þunga.

Ferðamennirnir standa í flæðarmálinu að taka myndir og virða fyrir sér brimið þegar alda kemur að landi, skellur síðan á þeim og sópar þeim með sér innar í fjöruna. Viðstaddir brugðust þó fljótt við og komu fólkinu til aðstoðar og aftur á fætur.

Litlu mátti muna að verr færi en ítrekað hefur verið sagt frá atvikum þar sem ferðamenn eru hætt komnir í fjörunni. Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins og hafa verið sett upp viðvörunarskilti sem ferðamenn virða ítrekað að vettugi.

Skilti sem sett var upp í Reynisfjöru.

Nokkur banaslys hafa einnig orðið í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum síðustu ár. Bandarísk kona á áttræðisaldri beið bana þegar brimalda hrifsaði hana út á dýpið árið 2007. Árið 2016 lést kínverskur ferðamaður um fertugt þegar stór alda sló honum í bergið. Síðast varð banaslys tengt briminu í janúar í fyrra þegar þýsk kona fór í sjóinn við Kirkjufjöru.

Ferðaþjónustuaðilar hafa kallað eftir því að gerðar verði frekari öryggisráðstafanir í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum vegna tíðra slysa. Lögregla hafði eftirlit með svæðinu um tíma eftir banaslysið í Reynisfjöru árið 2016 og þá var komið upp viðvörunarskiltum vegna slysahættu við sjóinn sama ár.


Tengdar fréttir

Stungu sér til sunds í Reynisfjöru

Birkir Örn Fanndal Kárason, bílstjóri og leiðsögumaður, náði í dag myndbandi af konu og barni sem stungu sér til sunds í sjónum við Reynisfjöru. Engan sakaði en við Reynisfjöru eru skilti sem vara við því að koma nálægt sjónum vegna fjölda banaslysa sem hafa orðið í fjörunni.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.