Enski boltinn

Sádi-arabískur prins fagnar sigri í baráttunni um völdin í Sheffield United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin McCabe.
Kevin McCabe. Getty/China Photos
Kevin McCabe og Abdullah Bin Mosaad Bin Abdulaziz Al Saud prins hafa staðið í málaferlum um yfirráð í enska úrvalsdeildarfélaginu sem komst aftur upp í deild þeirra bestu síðasta vor. Nú hafa dómstólar dæmt sádi-arabíska prinsinum í hag.

Kevin McCabe og Abdullah prins eiga báðir fimmtíu prósent í félaginu en nú þarf McCabe að selja sinn hluta fyrir fimm milljónir punda.

Kevin McCabe hefur stutt Sheffield United allt sitt líf og sagðist vera gríðarlega vonsvikinn með dóminn og að hann sé að íhuga áfrýjun.

Í málaferlunum kom meðal annars fram að Kevin McCabe hafi sett meira en hundrað milljónir punda inn í félagið.





Abdullah prins kom inn í myndina árið 2013 þegar McCabe var að leita sér að nýju fjárfesti til að koma inn í Sheffield United sem var þá í ensku C-deildinni.

Abdullah prins kom með tíu milljónir punda inn í félagið en það slettist upp á vinskapinn þeirra árið 2017 sem endaði með að þeir fóru fyrir dómstóla.

Sheffield United hefur farið upp um tvær deildir á þremur tímabilum og spilar í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×