Erlent

Synti fjórum sinnum yfir Ermarsundið án þess að stoppa

Samúel Karl Ólason skrifar
Sarah Thomas.
Sarah Thomas. Mynd af Facebooksíðu Söruh
Bandarísk kona hefur náð því afreki að verða fyrsta manneskjan til að synda fjórum sinnum yfir Ermarsundið án þess að stoppa. Sarah Thomas hóf áskorun sína á sunnudaginn og það tók hana rúma 54 klukkutíma að klára þrekraunina. Thomas lauk meðferð gegn brjóstakrabbameini í fyrra og tileinkaði afrek sitt þeim sem hafa lifað krabbamein af, samkvæmt BBC.

Einungis fjórir aðilar höfðu farið þrjár ferðir yfir Ermarsundið áður.

Í samtali við BBC sagðist hún verulega þreytt og hún stefndi á að sofa í sólarhring. Thomas sagði saltvatnið hafa verið erfitt að eiga við og hún væri sár í munninum og hálsinum. Þá sagðist hún hafa verið stungin í andlitið af marglyttu og að straumurinn hefði reynst henni mjög erfiður í síðustu ferðinni.

Til marks um strauminn, þá áttu þessar fjórar ferðir hennar að vera um 130 kílómetrar en hún endaði á því að synda 210 kílómetra.

Thomas sagði liðsmenn hennar hafa hjálpað henni að halda áfram en þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún syndir yfir Ermarsundið. Það hefur hún áður gert árið 2012 og 2016.

Eftirlitsmaðurinn Kevin Murphy, sem fylgdist með sundi Thomas, sagði afrek hennar ótrúlegt og það hafi verið tilfinningaþrungin stund þegar hún lauk sundinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×