Erlent

Obama segir Thunberg einn öflugasta málsvara jarðarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Obama sagði Thunberg að þau væru saman í liði þegar þau gáfu hvor öðru kumpánlega kveðju.
Obama sagði Thunberg að þau væru saman í liði þegar þau gáfu hvor öðru kumpánlega kveðju. Vísir/EPA
Sænski loftslagsaðgerðasinninn Greta Thunberg bað bandaríska þingmenn um að hlusta á vísindamenn þegar hún kom fyrir þingnefnd í dag. Barack Obama, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, lýsti táningsstúlkunni sem einum öflugasta málsvara plánetunnar eftir að þau hittust í fyrradag.Thunberg hefur orðið áberandi málsvari yngri kynslóðarinnar fyrir róttækum aðgerðum til að koma í veg fyrir hamfarir af völdum loftslagsbreytinga á jörðinni frá því að hún hóf svonefnd skólaverkföll í fyrra. Hún sigldi til Bandaríkjanna í lok sumars með skútu sem brennir ekki jarðefnaeldsneyti til að vera viðstödd loftslagsþing Sameinuðu þjóðanna í New York síðar í næstu viku.Í millitíðinni hefur Thunberg tekið þátt í mótmælum vegna loftslagsbreytinga í Bandaríkjunum og í dag kemur hún fyrir tvær nefndir fulltrúadeildar Bandaríkjaþings. Þegar hún kom fyrir utanríkismálanefndina lagði hún fram vísindaskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) um 1,5 gráðu hlýnun í stað formlegrar yfirlýsingar.„Ég legg þessa skýrslu fram sem vitnisburð minn því vil ekki að þið hlustið á mig, ég vil að þið hlustið á vísindamennina og ég vil að þið sameinist að baki vísindunum,“ sagði Thunberg sem er sextán ára gömul.

Sagði þingmönnum að spara lofið

Obama, fyrrverandi forseti, lofaði frumkvæði Thunberg eftir að þau hittust í Washington-borg á mánudag. Hún geri sér grein fyrir að hennar kynslóð eigi eftir að bera hitann og þungann af loftslagbreytingum og því sé hún óhrædd við að krefjast raunverulegra aðgerða.„Aðeins sextán ára er Greta Thunberg nú þegar einn öflugasti málsvari plánetunnar okkar,“ tísti Obama um fund þeirra í gær.

Thunberg dró heldur ekkert undan þegar hún og fleiri ungir loftslagsaðgerðasinnar komu fyrir hóp öldungadeildarþingmanna í gær. Þar sagði hún þingmönnunum að þeir legðu ekki nóg á sig til að berjast gegn loftslagsbreytingum.„Sparið lof ykkar. Við viljum það ekki. Ekki bjóða okkur hingað til að segja okkur hvað við veitum mikinn innblástur án þess að gera neitt í því vegna þess að það leiðir ekki til neins,“ sagði Thunberg og ítrekaði skilaboð sín um að stjórnmálamenn hlustuðu frekar á vísindamenn en hana eða aðra aðgerðasinna.


Tengdar fréttir

Thun­berg í lofts­lags­verk­falli hjá SÞ

Loftslagsaðgerða­sinninn frá Svíþjóð, Greta Thunberg, fékk bandarísk ungmenni með sér í lið þegar hún tók þátt í loftslagsverkfalli við höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna á árbökkum Manhattan í gær.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.