Erlent

Ó­ljóst hvort flokks­menn sam­þykki nýtt stjórnar­sam­starf

Atli Ísleifsson skrifar
Guiseppe Conte tók við sem forsætisráðherra Ítalíu sumarið 2018.
Guiseppe Conte tók við sem forsætisráðherra Ítalíu sumarið 2018. Getty
Ítalska Fimm stjörnu hreyfingin (M5S) heldur í dag stafræna atkvæðagreiðslu meðal flokksmanna um hvort flokkurinn skuli mynda nýja ríkisstjórn með Lýðræðisflokknum.

Leiðtogar flokkanna hafa nú þegar náð saman um stjórnarsáttmála en í lögum Fimm stjörnu hreyfingarinnar er lögð áhersla á beint lýðræði og að það skuli vera undir flokksmönnum komið hvort flokkurinn taki þátt í stjórnarsamstarfi.

Stjórnarsáttmálinn er í 26 punktum og var kynntur fyrir hádegi í dag. Þar er meðal annars að finna fyrirheit um aukið fé til velferðarmála, að lágmarkslaunum verði komið á og lækkun skatta.

Kannanir benda til að mjótt kunni að vera á munum um hvort meðlimir Fimm stjörnu hreyfingarnnar samþykki stjórnarsamstarf. Þannig bendir könnun SWG til að 51 prósent flokksmanna séu samstarfinu samþykk. Alls eru um 100 þúsund manns með rétt til að greiða atkvæði og ætti niðurstaða að liggja fyrir síðar í dag.

Fimm stjörnu hreyfingin og þjóðernisflokkurinn Bandalagið, með innanríkisráðherrann Matteo Salvini í broddi fylkingar, áttu í stjórnarsamstarfi en Bandalagið ákvað í síðasta mánuði að lýsa yfir vantrausti á forsætisráðherranum Guiseppe Conte með það að markmiði að boðað yrði til nýrra kosninga.

Fimm stjörnu hreyfingin og Lýðræðisflokkurinn ákváðu hins vegar þá að hefja stjórnarmyndunarviðræður, en verður sú stjórn að veruleika mun Conte áfram gegna embætti forsætisráðherra.


Tengdar fréttir

Stjórnarkrísa á Ítalíu eftir afsögn Conte

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, tilkynnti um afsögn sína í gær. Sakaði hann Matteo Salvini, leiðtoga Norðurbandalagsins, um að setja hagsmuni sína og flokks síns ofar hagsmunum landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×