Erlent

Tilkynnt um nýja ríkisstjórn á Ítalíu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Leiðtogi Fimmstjörnuhreyfingarinnar segist hafa í hyggju að skipa Giouseppe Conte forsætisráðherra á ný.
Leiðtogi Fimmstjörnuhreyfingarinnar segist hafa í hyggju að skipa Giouseppe Conte forsætisráðherra á ný.
Leiðtogar Lýðræðisflokksins og Fimmstjörnuhreyfingarinnar hafa komið sér saman um stjórnarsáttmála og ákveðið að mynda ríkisstjórn. Hún mun sitja til ársins 2023 þegar næsta þjóðaratkvæðagreiðsla er á dagskrá.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að Luigi Di Maio, formaður Fimmstjörnuhreyfingarinnar, myndi glaður skipa Giouseppe Conte forsætisráðherra á ný en Conte sagði af sér embætti 20. ágúst síðastliðinn vegna ábyrgðarleysis sem hann sagði Matteo Salvini, leiðtoga Norðurbandalagsins, hafa sýnt af sér.

Salvini, sem einnig var fyrrverandi innanríkiráðherra landsins, kom ítölsku þjóðinni í opna skjöldu í upphafi mánaðarins þegar hann sleit ríkisstjórnarsamstarfi við Fimmstjörnuhreyfinguna eftir aðeins eitt ár við stjórnvölinn en þess má geta að áður en flokkarnir tveir skrifuðu undir stjórnarsáttmála fyrir um ári síðan ríkti margra mánaða stjórnarkreppa í landinu.

„Við höfum komist að þeirri niðurstöðu að rík ástæða sé til að gera þessa tilraun,“ sagði Nicola Zigaretti í samtali við BBC að loknum fundi með forsetanum.

Lýðræðisflokkurinn sem staðsetur sig vinstra megin við miðju á hinu pólitíska litrófi og Fimmstjörnuhreyfingin sem rekur harða innflytjendastefnu, hafa löngum verið á öndverðum meiði í hinum ýmsu málum.

„Á erfiðum tímum sem þessum verðum við að axla ábyrgð. Við höfum ekki efni á öðru en að sýna hugrekki og láta reyna á þetta,“ sagði Zigaretti.

Von er á yfirlýsingu Sergio Mattarella, forseta Ítalíu, vegna nýrrar ríkisstjórnar síðar í kvöld.

Mattarella biðlaði á dögunum til þingflokkanna að reyna að ná saman ellegar þyrfti hann að skipa bráðabirgðastjórn og blása til kosninga.


Tengdar fréttir

Engin sátt um kosningar

Öldungadeild ítalska þingsins komst ekki að niðurstöðu þegar þingmenn ræddu í gær um hvort tillaga Matteos Salvini, leiðtoga þjóðernisflokksins Bandalagsins og innanríkisráðherra, um vantraust á ríkisstjórnina yrði tekin til umræðu.

Stjórnarkrísa á Ítalíu eftir afsögn Conte

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, tilkynnti um afsögn sína í gær. Sakaði hann Matteo Salvini, leiðtoga Norðurbandalagsins, um að setja hagsmuni sína og flokks síns ofar hagsmunum landsins.

Forsætisráðherra Ítalíu segir af sér

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, sakaði innanríkisráðherra landsins um ábyrgðarleysi þegar hann tilkynnti um afsögn sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×