Umfjöllun og viðtöl: HK/Víkingur - Breiðablik 0-1| Breiðablik tók stigin þrjú í bragðdaufum Kópavogsslag

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/bára
Breiðablik vann HK/Víking með einu marki gegn engu í nágrannaslag í Kórnum í kvöld. Leikurinn bauð ekki uppá mikla skemmtun en Breiðablik gerði það sem þurfti og sótti stigin þrjú

Breiðablik byrjaði með boltann og var með hann allan leikinn. HK/Víkingur spilaði með fimm manna varnarlínu og varðist vel en gestirnir pressuðu stíft. Fyrsta og eina mark leiksins kom eftir 20 mínútna leik, Breiðablik fékk þá aukaspyrnu á miðjum vallarhelmingu heimamanna. Agla María Albertsdóttir átti góða spyrnu inní miðjan teigin þar sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir mætti boltanum og skallaði í netið. 

Breiðablik hafði öll tök á leiknum og leiddi sanngjarnt að fyrri hálfleik loknum með einu marki, 1-0. 

Síðari hálfleikur var rólegur, Breiðablik hélt áfram tökunum á leiknum en HK/Víkingur varðist vel þeirri stöðugu pressu sem liðið var undir en Blika stelpurnar sköpuðu sér ótal færa en tókst ekki að nýta sér þau og lokatölur í Kórnum voru 1-0, Breiðabliki í vil. 

Af hverju vann Breiðablik? 

Fyrst og fremst því að gæðamunurinn á þessum liðum er gríðalegur. Breiðablik var með öll völd á vellinum og lá í sókn frá fyrstu mínútu. 

Hverjar stóðu upp úr?

Audrey Baldwin, markvörður HK/Víkinga, var virkilega öflug í markinu í kvöld. Hún varði í tvígang dauðafæri ásamt öðrum minna hættulegum skotum, en eins og áður hefur komið fram lá Breiðablik í sókn en Audrey gerði þeim erfitt fyrir í dag. 

Flest allir leikmenn Blika áttu góða kafla í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik en þeirra leikur datt niður í þeim síðari og erfitt að telja upp einhverjar sem stóðu upp úr. Kristín Dís Árnadóttir, Berglind Björg Þorvaldsdóttir, Alexandra Jóhannsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, voru þó heilt yfir áhrifamestar í liði Blika. 

Hvað gekk illa? 

HK/Víking gekk ekkert að skapa sér færi, þær lágu til baka og þorðu ekki að gefa færi á sér með því að sækja á Blikana. Breiðabliki, hins vegar, gekk illa á nýta sér þau færi sem þær voru að koma sér í. 

Hvað er framundan? 

Stórleikur tímabilsins er í næstu umferð þegar Breiðablik mætir Val, sannkallaður úrslitaleikur þegar þessi tvö efstu lið mætast. HK/Víkingur fer þá til Vestmannaeyja þar sem þær mæta ÍBV og á þar séns á að næla sér í nauðsynleg stig í sinni botnbaráttu

 

Rakel Loga: Mér fannst við vera betra liðið

Rakel Logadóttir, þjálfari HK/Víkings, var ángæð með frammistöðu liðsins þrátt fyrir tap í dag

„Leikurinn spilaðist mjög vel fyrir okkur fannst mér og ég er mjög ánægð með stelpurnar. Þær eru að sýna framfarir í leiknum og í rauninni fannst mér við vera betra liðið“

„Þær skoruðu eitt mark eftir aukaspyrnu sem mér fannst þær ekki hafa átt að fá. Enn svo fannst mér bara við vera betri“

Breiðablik var talsvert hættulegri aðilinn í þessum leik og sótti stíft að marki heimamanna. Rakel er ánægð með varnarleik sinna kvenna og hrósar þeim fyrir agaðan varnarleik

„Þær voru mjög agaðar í varnarleiknum, skipulagðar og töluðu vel saman. Okkar leikplan var að leyfa þeim að vera bara með boltann og það gekk upp. Enn við fengum á okkur þetta mark og það er það eina sem skilur liðin að“

„Við reyndum að sækja aðeins á þær undir lokin en þær eru með hraða og hættulega leikmenn, það auðvitað opnast þá fyrir þær hjá okkur og við vildum ekki hætta á það. Við héldum bara skipulagi allan leikinn og vorum þolimóðar. Við fengum alveg færi en klúðruðum þeim“

Audrey Baldwin, markvörður liðsins, átti frábæran leik í dag. Rakel segir að hún eigi hrós skilið fyrir ekki einungis þennan leik heldur frammistöðu sína í allt sumar

„Hún var frábær, eins og alla aðra leiki, hún er búin að vera frábær í sumar. Hún er búin að bjarga okkur oft og á hrós skilið“

Rakel segir að markmiðin séu skýr, þær eigi ennþá von á að halda sér uppi og að það ætli þær sér að gera.

„Við eigum eftir ÍBV, Keflavík og Þór/KA svo í síðasta leik svo það er ennþá von hjá okkur.“ sagði Rakel að lokum

 

Þorsteinn hefur ekki áhyggjur af framhaldinuvísir/bára
Steini: Ég ber virðingu fyrir Val, en ég er ekki hræddur við þær

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, var sáttur við stigin þrjú en ekki frammistöðu liðsins. 

„Þetta var ekkert góður leikur, þetta var svona týpískur leikur hjá okkur eftir landsleikjahlé.“ 

„Við tökum þessi þrjú stig bara og höldum áfram, það er ekkert annað sem við getum gert. Við getum alveg lært af þessu. Það vantaði allt hugarfar í þetta, smá drápseðli, smám saman hægðist á okkur. 

Heilt yfir vorum við nátturlega að skapa ótrúlegar stöður til að komast í dauðafæri og fengum nokkur mjög góð færi. Viljum auðvitað nýta þessi færi betur en þetta sleppur á meðan við fáum ekki mark á okkur. 

„Við skulum bara vona það að leikmenn skori í þeim leikjum sem framundan eru“ sagði Steini, frekar ósáttur við það hvernig stelpurnar nýttu sín færi í dag en framundan hjá Blikum eru bæði evrópuleikir og síðan gríðalega mikilvægur leikur gegn Val í toppbaráttunni um efsta sæti deildarinnar. 

Þrátt fyrir slakan leik í dag segist Steini ekki kvíða leiknum gegn Val, hann segir þetta vissulega vera stærsta leik sumarsins en að hann hafi engar áhyggjur af honum

„Þetta er auðvitað stærsti leikur sumarsins, það er ekki hægt að neita því en við verðum klár í hann. Ég óttast ekkert að ég þurfi að segja stelpunum að hlaupa og djöflast, ég hef engar áhyggjur af því og ég hef engar áhyggjur af Val. Valsliðið er frábært lið og ég ber virðingu fyrir þeim, en ég er ekki hræddur við þær.“ sagði Steini að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira