Erlent

Johnson segir stjórnarandstöðuna hrædda við vilja þjóðarinnar

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Þótt Johnson hafi getað teymt þetta naut nærri Aberdeen í dag virðist hann ekki geta boðað til kosninga.
Þótt Johnson hafi getað teymt þetta naut nærri Aberdeen í dag virðist hann ekki geta boðað til kosninga. AP/Andrew Milligan
Lávarðadeild breska þingsins samþykkti í dag frumvarp stjórnarandstöðunnar um að skuldbinda Boris Johnson til þess að fara fram á að útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu verði frestað. Frumvarpið verður að öllum líkindum að lögum á mánudag.

Stjórnarandstaðan tilkynnti um það að hún muni ekki styðja tillögu Johnson-stjórnarinnar um að boða til kosninga þann 15. október, en tillagan verður lögð fram í annað sinn á þingi á mánudag.

Flokkarnir vilja fyrst að Johnson og Evrópusambandið sammælist um að fresta settum útgöngudegi, 31. október, líkt og kveðið er á um í fyrrnefndu frumvarpi. 

„Við erum meðvituð um að staða forsætisráðherrans er veik. Við styrkjum hann bara ef við heimilum honum að boða til kosninga. Ef við styrkjum hann á þann hátt erum við að opna gluggann fyrir samningslausri útgöngu,“ sagði Liz Saville Roberts, þingflokksformaður Velska þjóðarflokksins.

Johnson sagði að hann myndi reyna að ná nýjum útgöngusamningi á fundi leiðtogaráðs Evrópusambandsins 17. og 18. október. Hann sagði jafnframt að ýmsir á þingi reyndu nú að koma í veg fyrir að Bretar gangi út úr Evrópusambandinu þann 31. október. 

„Þar með talinn er Jeremy Corbyn [leiðtogi Verkamannaflokksins] og Skoski þjóðarflokkurinn. Ég tel þau hafa rangt fyrir sér. Ég held að þjóðin vilji að við klárum málið. Ég sagði við þau að þótt þau vildu þessar endalausu frestanir væri ég efins um að þjóðin væri sömu skoðunar. Því ætti að boða til kosninga,“ sagði forsætisráðherrann og hélt áfram:

„Þau sögðu nei, sem er undarlegt. Þau treysta ekki þjóðinni, vilja ekki kosningar. Allt í lagi, kannski halda þau að þau geti ekki unnið. Hvað um það. Ég fer til Brussel, ég næ samkomulagi og við klárum málið þann 31. október.“


Tengdar fréttir

Stjórnarandstaðan hafnar nýjum kosningum

Flokkarnir sem mynda stjórnarandstöðuna í Bretlandi hafa sammælst um að hafna kröfu Boris Johnson, forsætisráðherra, um að haldnar verði þingkosningar fyrir leiðtogafund Evrópusambandsins í október, þegar Bretland á að ganga úr sambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×