Innlent

Allir eftirlifandi grindhvalirnir voru aflífaðir í morgun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Frá fjörunni við Sauðanes í gær. Hvalirnir voru flestir lifandi þegar smalafólk kom að þeim en hafa nú verið aflífaðir.
Frá fjörunni við Sauðanes í gær. Hvalirnir voru flestir lifandi þegar smalafólk kom að þeim en hafa nú verið aflífaðir. Mynd/Steinar Snorrason
Allir sextíu grindhvalirnir sem syntu upp í fjöru og strönduðu í landi Sauðaness á Langanesi í gær eru dauðir. Eftirlifandi hvalir voru aflífaðir í fjörunni í morgun. Varðstjóri hjá lögreglunni á Þórshöfn beinir því til fólks að ganga um svæðið af virðingu.

Smalafólk gekk fram á hvalina í gær og lét lögreglu vita. Um fimmtán til 20 dýr voru þegar dauð þegar menn komu á staðinn í gær en lagt var upp með að bjarga þeim sem enn voru lifandi. Steinar Snorrason varðstjóri hjá lögreglunni á Þórshöfn segir að það hafi ekki tekist.

„Það voru nokkur dýr lifandi í gærkvöldi, seint í gærkvöldi, og það var ákveðið að taka stöðuna í morgun og þau voru aflífuð sem voru lifandi.“

Hræin eru í eigu og á ábyrgð landeiganda. Steinar segir að tekin verði sýni úr hvölunum og ákvörðun um förgun verði svo tekin í samráði við Matvælastofnun. Hann bendir á að hræin séu í alfaraleið og því mikilvægt að ferðalangar á svæðinu fari varlega.

„Fólk, þeir sem eru að skoða þetta, gangi með virðingu um þetta. Séu ekki að atast í þessu dánu dýrum þarna, það er aðalatriðið held ég.“

Ítrekað hefur gerst í sumar að grindhvalir syndi upp í fjöru og strandi, þar á meðal í Löngufjörum og nærri Garði.

 

Grindhvalirnir við ströndina á Langanesi í gær.Steinar Snorrason

Tengdar fréttir

Ekki tókst að losa öll hræ grindhvalana úr fjörunni í Garði

Ekki tókst að losa öll hræ grindhvalana úr fjörðunni í Garði eins og til hafði staðið. Eitt hræ, sem hafði áður losnað og síðan flotið aftur í land var urðað í fjörinni. Þannig var sleginn botn í langa verslunarmannahelgi björgunarsveitarfólks.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×