Innlent

Tugir grindhvala strönduðu á Löngufjörum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Grindhvalirnir í Löngufjörum í dag.
Grindhvalirnir í Löngufjörum í dag. Mynd/David Scwarzhan
Um fimmtíu grindhvalir hafa strandað á Löngufjörum á Snæfellsnesi. Meðfylgjandi myndir, sem David Scwarzhan þyrluflugmaður hjá Reykjavík Helicopters tók af hvölunum, sýna dýrin í sandinum en David telur að það sé nokkuð síðan hvalirnir strönduðu í fjörunni.

David segir í samtali við Vísi að hann hafi verið á ferð með tveimur bandarískum ferðamönnum um svæðið síðdegis í dag. Ferðamennirnir hafi tekið eftir hvölunum og þau ákveðið að lenda þyrlunni í fjörunni, þá hafi klukkan verið um hálf tvö.

„Við héldum að þetta væru kannski selir eða jafnvel höfrungar. Svo sáum við þessa dauðu hvali og gengum aðeins um fjöruna og tókum myndir, því við hugsuðum sem svo að fólk kynni að hafa áhuga á þessu,“ segir David.

„Við töldum plús, mínus fimmtíu en sumir voru hálfgrafnir ofan í sandinn svo þeir voru kannski fleiri.“

Viðbragðsaðilar á Vesturlandi sem fréttastofa hefur náð tali af í kvöld höfðu ekki verið kallaðir út vegna málsins. Lögreglan í Stykkishólmi staðfestir þó við RÚV að henni hafi borist ábending um hvalina.

Hér að neðan má sjá fleiri myndir af hvölunum í Löngufjörum. Fréttin hefur verið uppfærð.

Mynd/David Scwarzhan
Mynd/David Scwarzhan
Mynd/David Scwarzhan



Fleiri fréttir

Sjá meira


×