Að minnsta kosti fjóra grindhvali rak á land við Ólafsvík í gærkvöldi að því er fram kemur á vef 200 mílna. Þar segir að stærðarinnar hvalavaða, sem taldi um hundrað dýr, hafi verið um 100 til 200 metra undan ströndinni.
Þrír hvalanna sem strönduðu náðu að koma sér á flot á ný af sjálfsdáðum en svo virtist sem einn væri að drepast í flæðarmálinu, en ekki hafa borist frekari fregnir af því hvernig fór í nótt. Rætt var við Kristinn Jónasson bæjarstjóra Snæfellsbæjar á vefnum í gærkvöldi sem var þá staddur í fjörunni.
Hópur erlendra ferðamanna reyndi þá að koma hvalnum á haf út en hafði ekki haft erindi sem erfiði. Kristinn óttaðist þá að fleiri hvali myndi reka á land, en vaðan virtist færast nær ströndinni.
Grindhvalavöður hafa verið nokkuð tíðar í sumar. Þannig rak tugi grindhvala á land á Löngufjörum um miðjan júlímánuð og í byrjun ágúst strönduðu 50 til 60 dýr í fjörunni við Útskálakirkju í Garði.
Grindhvalir strönduðu við Ólafsvík

Tengdar fréttir

Ólíklegt að hvalirnir strandi viljandi til að deyja
Sjávarlíffræðingur segir að aðstæður í Löngufjörum á Snæfellsnesi, þar sem um fimmtíu grindhvali hefur strandað, séu einkar óhentugar fyrir hvali af þessari tegund.

Grindhvalavaða í miðri Keflavíkurhöfn
Hvalirnir halda sig í hóp í miðri höfninni.

Ekki tókst að losa öll hræ grindhvalana úr fjörunni í Garði
Ekki tókst að losa öll hræ grindhvalana úr fjörðunni í Garði eins og til hafði staðið. Eitt hræ, sem hafði áður losnað og síðan flotið aftur í land var urðað í fjörinni. Þannig var sleginn botn í langa verslunarmannahelgi björgunarsveitarfólks.