Erlent

Nánast öllum flug­ferðum British Airwa­ys af­lýst

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Flugvélar British Airways á Heathrow-flugvelli í morgun. Þeim verður ekki flogið næstu tvo sólarhringana eða svo vegna verkfalls flugmanna.
Flugvélar British Airways á Heathrow-flugvelli í morgun. Þeim verður ekki flogið næstu tvo sólarhringana eða svo vegna verkfalls flugmanna. vísir/getty
Nánast öllum flugferðum breska flugfélagsins British Airways í dag og á morgun hefur verið aflýst vegna verkfalls flugmanna félagsins sem hófst á miðnætti.

Er þetta í fyrsta sinn sem flugmenn British Airways fara í verkfall. Þeir leggja niður störf í 48 klukkustundir til þess að knýja á um hærri laun.

Í umfjöllun Guardian um málið kemur fram að flugfélagið hafi tilkynnt það á heimasíðu sinni að vegna verkfallsins ætti það ekki annarra kosta völ en að aflýsa nánast öllu flugi.

British Airways flýgur um 800 ferðir á dag og má búast að allt að 145 þúsund farþegar lendi í vandræðum vegna verkfallsins annars vegar í dag og hins vegar á morgun. Farþegum hefur verið boðið að fá endurgreitt eða að bóka aftur flug.  

„Við skiljum óánægju ykkar og vandræði vegna verkfallsins. Eftir margra mánaða tilraunir til þess að komast að samkomulagi í kjaradeilunni þykir okkur mjög miður að það hafi þurft að koma til þessa,“ segir á vefsíðu British Airways.

Bæði stéttarfélag flugmannanna og flugfélagið hafa lýst sig reiðubúin til þess að setjast aftur við samningaborðið.  

British Airways hafði boðið flugmönnunum 11,5 prósent launahækkun sem félagið segir að hækki laun sumra flugmanna í meira en 200 þúsund pund á ársgrundvelli.

 

Flugfélagið hefur sagt að það telji tilboðið sanngjarnt og rausnarlegt auk þess sem flugliðar, starfsfólk á flugvellinum og flugvirkjar hafa samþykkt svipaða kauphækkun.

Flugmenn segja á móti að málið snúist ekki eingöngu um laun. Þeir treysti einfaldlega ekki vinnuveitandanum og segja baráttu sína þannig einnig snúast um virðingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×