Erlent

Open Arms skipið fær að fara í land eftir þriggja vikna kyrr­setu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Flóttafólk um borð í Open Arms skipinu fagna ákvörðun Patronaggio um að sigla skipinu í land.
Flóttafólk um borð í Open Arms skipinu fagna ákvörðun Patronaggio um að sigla skipinu í land. ap/Francisco Gentico

Ítalskur saksóknari hefur gefið fyrirskipun um að Open Arms björgunarskipinu verði siglt í land og fólkið þar um borð fái að ganga á land á eyjunni Lampedusa. Frá þessu er greint á ítölskum fréttamiðlum

Talið er að meira en 100 flóttamenn hafi verið um borð í spænska skipinu í morgun en ítölsk yfirvöld hafa neitað að hleypa fólkinu í land í nærri þrjár vikur þrátt fyrir að næstum þrjátíu börn og þeir sem voru orðnir veikir höfðu verið fluttir í landi.

Sjá einnig: 27 unglingar á flótta fengu að fara í land á Ítalíu

Aðstæðurnar um borð í skipinu eru sagðar hafa verið mjög slæmar og til marks um það reyndu í kring um tíu flóttamannanna að synda í land en ítalska landhelgisgæslan náði þeim áður en þeir komust mjög langt.

Luigi Patronaggio, saksóknari í Agrigento, gaf fyrirskipun um að bátnum yrði siglt í höfn eftir að hann heimsótti bátinn seinni partinn á þriðjudag. Heimildarmaður fréttastofu AFP segir tilskipunina hafa verið gefna vegna erfiðra aðstæðna um borð.

Stofnandi Open Arms fagnaði í dag ákvörðuninni og skrifaði á Twitter: „Eftir nítján daga fáum við að fara í land í Lampedusa.“

Fyrr í dag tilkynntu yfirvöld á Spáni að þau hygðust senda skip til Lampedusa til að sækja flóttafólkið en það hefði tekið meira en þrjá daga.

Innanríkisráðherra Ítalíu, Matteo Salvini, hefur verið strangur þegar kemur að flóttafólki og innflytjendum og var búinn að loka öllum höfnum fyrir þeim. Hann tísti fyrr í dag að eina leiðin til að stöðva það að Ítalía yrði aftur „flóttamannabúðir Evrópu“ væri að vera strangur.
Forsætisráðherra Ítalíu, Giuseppe Conte, sagði í dag af sér en mikil spenna hefur verið á milli stjórnarflokkanna tveggja. Conte og Salvini eru leiðtogar sitthvors stjórnarflokksins, Conte Fimmstjörnuhreyfingarinnar og Salvini Norðurbandalagsins. Salvini kynnti í byrjun mánaðar að hann hygðist slíta ríkisstjórnarsamstarfi við Fimmstjörnuhreyfinguna. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.