Innlent

Sitja pikkföst í umferð vegna malbikunar

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Verið er að malbika stóran kafla á milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur þennan morguninn.
Verið er að malbika stóran kafla á milli Mosfellsbæjar og Reykjavíkur þennan morguninn. Vísir/vilhelm

Malbikunarframkvæmdir á Vesturlandsvegi hafa sett svip á umferðina úr Mosfellsbæ þennan morguninn. Argur ökumaður hringdi í fréttastofuna í morgun og sagðist sitja pikkfastur í umferðinni.

Hann væri að reyna að keyra frá Lágafellsskóla í Mosfellsbæ til borgarinnar en orðið lítið ágengt. Eftir 15 mínútur í bílaröðinni væri hann „ekki einu sinni kominn upp á Vesturlandsveg,“ eins og ökumaðurinn orðaði það.

Sjálfur áætlaði hann að umferð samviskusamra framhalds- og háskólanema kynni að vera skýringin, sem nú væru farnir að mæta í stríðum straumum í skólana eftir sumarfrí.

Vegagerðin leggur þó til líklegri skýringu á umferðarþunganum. Unnið sé að því að fræsa og malbika aðra akreinina á Vesturlandsvegi, frá hringtorgi við Korpúlfsstaðaveg áleiðis að hringtorgi við Lambhagaveg. Fyrir vikið þarf öll morgunumferðin að sameinast á eina akrein á löngum kafla.

Vinnan hófst klukkan 6 í morgun og áætlað er að hún muni standa yfir til klukkan 18 síðdegis.
 Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.