Íslenski boltinn

Grótta minnkaði muninn í toppbaráttunni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gróttu-menn fagna marki.
Gróttu-menn fagna marki. vísir/vilhelm
Grótta vann góðan 3-1 sigur á Fram á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi í kvöld. Með sigrinum munar nú aðeins einu stigi á Gróttu og toppliði Fjölnis í Inkasso-deildinni.

Það er mikil spenna í baráttunni um sæti í Pepsi Max-deildinni að ári. Fjölnismenn, sem setið hafa í efstu sætinu síðustu vikur, töpuðu í kvöld gegn Víkingi frá Ólafsvík og því skapaðist gott tækifæri fyrir Þórsara og Gróttu í sætunum fyrir neðan að minnka muninn.

Það tækifæri nýttu Seltirningar sér vel. Þeir mættu Fram á heimavelli sínum í kvöld og komust í 1-0 á 24.mínútu með marki frá Arnari Þór Helgasyni. Þremur mínútum síðar skaut Óliver Dagur Thorlacius framhjá úr víti og fór þar með illa með gott tækifæri til að tvöfalda forystuna.

Það gerði hins vegar Sölvi Björnsson á 67.mínútu og allt stefndi í sigur Gróttu. Fred Saraiva minnkaði muninn fyrir Framara á 78.mínútu en aðeins tveimur mínútum síðar skoraði Sölvi sitt annað mark og gulltryggði sigur Gróttu.

Fjölnismenn halda enn efsta sæti Inkasso-deildarinnar með 35 stig en Grótta fór með sigrinum uppfyrir Þórsara og í 2.sætið þar sem þeir sitja með 34 stig.

Þórsarar mæta Leikni á heimavelli á morgun og geta með sigri jafnað Fjölnismenn að stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×