Enski boltinn

Lampard vill meira frá framherjum sínum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Frank Lampard vill fleiri mörk.
Frank Lampard vill fleiri mörk. vísir/getty
Chelsea skoraði fæst mörk af toppliðunum sex í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og treystu mikið á Eden Hazard sem í sumar gekk til liðs við Real Madrid.

Frank Lampard tók við sem þjálfari Chelsea í sumar og í viðtali við Sky skorar hann á framherja sína að stíga upp en viðurkennir að allur hópurinn verði að leggja sitt að mörkum svo liðið skori fleiri mörk.

Chelsea hefur aðeins skorað eitt mark í fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni og framherjarnir Tammy Abraham, Oliver Giroud og Michy Batshuayi eiga enn eftir að koma boltanum í netið.

Lampard segir að allir í hópnum þurfi að leggja í púkkið.

„Við þurfum að finna þetta í hópnum, ég veit hver tölfræðin er og ég veit að Eden Hazard kom að mörgum mörkum í fyrra."

"Þetta eru staðreyndir og við þurfum að takast á við þær og vinna saman. Getum við fengið mörk frá öðrum stöðum á vellinum og getum við verið klínískari fyrir framan markið?"

„Toppliðin eru með leikmenn sem vinna jafna leiki fyrir þau. Þetta er áskorun fyrir okkur því í augnablikinu er þetta ekki staðan hjá okkur og við þurfum að breyta því."

Lampard nefndi Liverpool sem dæmi þar sem ábyrgðin að skora dreifist á fleiri leikmenn en fremstu mennina.

„Öll lið hafa sín sérkenni og það þýðir ekki að við þurfum einhverja eina leið til að skora mörk. Við þurfum mörk úr fleiri stöðum á vellinum, það er alveg ljóst."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×