Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Dómgæslan var mjög skrítin frá A til Ö eins og oftast hjá Helga Mikael

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnari Páli var mikið niðri fyrir í leikslok.
Rúnari Páli var mikið niðri fyrir í leikslok. vísir/bára
„Þú verður að spyrja dómarann að því. Hvernig væri að fá þá í viðtöl til að skera úr um þessa dóma? Þetta er glórulaust að mínu viti. Ég veit ekki á hvað hann dæmdi,“ sagði Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir jafnteflið við Val, 2-2, í Pepsi Max-deild karla í kvöld.

Atvikið sem Rúnar var svo ósáttur með var þegar mark var dæmt af Stjörnunni þegar tæpar 20 mínútur voru eftir. Markið var fyrst dæmt gilt en eftir að hafa ráðfært sig við aðstoðardómara dæmdi Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, markið af.

„Dómgæslan í þessum leik var mjög skrítin frá A til Ö eins og oftast hjá Helga. Því miður er það þannig. Ég er mjög heitur þannig að það er best að segja sem minnst.“

Stjarnan lenti undir snemma leiks en náði svo heljartaki á leiknum og komst yfir. Valur jafnaði síðan og fékk gullið tækifæri til að vinna en Haraldur Björnsson varði vítaspyrnu Patricks Pedersen.

Rúnar var sáttur með frammistöðu sinna manna og fannst hún verðskulda sigur.

„Það fannst mér. Þetta er erfiður útivöllur og við komumst yfir. Við vorum klaufar. Svo fannst mér rangstöðufnykur af öðru markinu og líka þegar þeir fengu vítið. Það var kraftur og vinnusemi í okkar liði en við hefðum getað verið rólegri með boltann. Það er ágætt að fá stig hérna og við þurfum bara að vinna FH næst,“ sagði Rúnar að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×