Innlent

Notkun á rafrettum fer einungis minnkandi meðal ungra karlmanna

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar

Konur virðast nota rafrettur í meira mæli en karlmenn. Dagleg notkun á rafrettum meðal ungra karlmanna fer minnkandi þó aðra sögu sé að segja af notkun ungra kvenna. Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa staðfest fyrsta andlátið sem rekja má til notkunar rafrettna. Vöntun er á langtímarannsóknum á rafrettum að sögn verkefnastjóra hjá Embætti Landlæknis sem segir notkunina ekki skaðlausa.

Undanfarin ár hefur umræða um notkun rafrettna meðal ungmenna farið mikinn. Embætti Landlæknis mældi aukningu í mörg ár en nú er breyting á.

„Við vorum að mæla aukningu í mörg ár. Í fyrra sáum við að það var hætt að aukast notkun á rafrettum og í ár sjáum við að það er heldur að draga úr þeim heldur en hitt,“ sagði Viðar Jensson, verkefnastjóri hjá Embætti Landlæknis.

Þó séu breytingar á notkuninni. Dagleg notkun á rafrettum meðal karlmanna minnkar um tvö prósent. Karlmenn neyta þó tóbaks í vör í auknari mæli en notkunin eykst um sex prósent.

Dagleg notkun á rafrettum meðal ungra kvenna minnkar þó ekki, heldur mælist enn í kringum sjö prósent líkt og áður. Þá eykst dagleg notkun á munntóbaki meðal kvenna og fer úr tveimur prósentum í þrjú.

„Konur virðast nota rafrettur í meira mæli en karlar. Sérstaklega ungar konur,“ sagði Viðar.

Viðar vonast til að skólayfirvöld taki höndum saman í ljósi þess að skólahald er hafið að nýju, en samkvæmt lögum um rafrettur er notkun þeirra bönnuðí skólum landsins.

Heilbrigðisyfirvöld í Bandaríkjunum hafa staðfest fyrsta andlátið sem má rekja til notkunar rafrettna. Á sama tíma hafa sérfræðingar rannsakað nýjan og óþekktan lungnasjúkdóm sem herjar á tæplega 200 manns í Bandaríkjunum.

Einstaklingurinn sem lést hafði verið lagður inn á spítala í Illinoisríki í Bandaríkjunum með óþekktan kvilla eftir rafrettunotkun. Hafði viðkomandi þróað með sér alvarlegan lungnasjúkdóm og lést í kjölfarið af völdum hans.

„Það hefur lengi verið sagt að skaðsemi af völdum notkunar á rafrettum er ekki þekkt. Þetta eru mjög áhugaverðar upplýsignar sem eru að koma fram núna en það er vöntun á landtímarannsóknum á rafrettum en þær eru örugglega ekki skaðlausar,“ sagði Viðar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.