Erlent

Lýsir yfir endalokum ítölsku ríkisstjórnarinnar

Kjartan Kjartansson skrifar
Salvini hefur sagt arrivederci við Fimm stjörnu hreyfinguna.
Salvini hefur sagt arrivederci við Fimm stjörnu hreyfinguna. Vísir/EPA

Matteo Salvini, varaforsætisráðherra Ítalíu og leiðtogi hægriöfgaflokksins Bandalagsins, segir að slitnað hafi upp úr ríkisstjórnarsamstarfinu við Fimm stjörnu hreyfinguna og að boða þurfi til nýrra kosninga. Luigi Di Maio, leiðtogi samstarfsflokksins, segir flokk sinn tilbúinn í kosningar.

Grunnt hefur verið á því góða á milli stjórnarflokkanna tveggja undanfarnar vikur en ár er frá því að þeir mynduðu saman ríkisstjórn. Nú síðast greiddu flokkarnir atkvæði gegn hvor öðrum á þingi varðandi háhraðalestartengingu við Frakkland.

Salvini segist hafa greint Guiseppe Conte, forsætisráðherra, frá því að samstarfinu hafi verið slitið í dag, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Þingið gæti komið saman í næstu viku til að ákveða næstu skref en það er nú í sumarfríi.

Óvíst er þó hvort að Sergio Mattarella, forseti, sé tilbúinn að slíta þingi og boða til nýrra kosninga áður en undirbúningi fjárlaga verður lokið í haust. Forsetinn er sá eini sem getur leyst upp þingið.

Di Maio segir Fimm stjörnu hreyfinguna ekki óttast kosningar. Sakaði hann Salvini um að fara með landið í „þeysireið“. Ítalir muni snúast gegn honum vegna þess.

Fimm stjörnu hreyfingin hefur fleiri þingmenn en Bandalagið. Nýlegar skoðanakannanir benda aftur á móti til þess að Bandalagið njóti stuðnings tvöfalt fleiri kjósenda en samstarfsflokkurinn. Salvini hefur ítrekað hótað því að slíta stjórnarsamstarfinu til þess að nýta sér meðbyrinn í nýjum kosningum.


Tengdar fréttir

Forsætisráðherra Ítalíu hótar afsögn

Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, hótaði afsögn sinni í gær ef samstarfsflokkar hans tveir, Norðurbandalagið og Fimm stjörnu hreyfingin, hættu ekki endalausum deilum sín í milli.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.