Erlent

Reistu stærðarinnar Trump-skúlptúr í Slóveníu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Verkið hefur hlotið blendnar viðtökur í Slóveníu.
Verkið hefur hlotið blendnar viðtökur í Slóveníu. Vísir/AP
„Í fyrsta sinn síðan í seinni heimsstyrjöldinni sjáum við uppgang popúlisma. Sjáiði bara Boris Johnson, sjáiði Trump, forsetann okkar og Viktor Orban. Hvert stefnir heimurinn eiginlega?“Þetta segir listamaðurinn Tomaz Schlegl um stærðarinnar högglistaverk af Donald Trump, Bandaríkjaforseta, sem hann reisti í Slóveníu, heimalandi Melaniu Trump, forsetafrúarinnar.Listaverkið er átta metrar að hæð og stendur á einkalóð í þorpinu Sela pri Kamniku, norðaustur af höfuðborginni Ljubljana. Viðarskúlptúrinn sýnir Trump með hnefann á lofti, klæddan í blá jakkaföt og rautt bindi.Schlegl bindur vonir við að verkið veki upp áleitnar spurningar um lýðræði og popúlisma. Hann vill að íbúar á Vesturlöndum átti sig á því að sjálft lýðræðið eigi í vök að verjast. Í verkinu er kaldhæðnisleg vísun í frelsisstyttuna sem stendur á Liberty-eyju í eigu New York-borgar sem táknar bæði frelsi, tækifæri og býður innflytjendur og Bandaríkjamenn á heimleið velkomna.Verkið hefur hlotið blendnar viðtökur, sumir eru hæstánægðir með það á meðan aðrir segja að verkið sé bæði umhverfislýti og sóun á góðum viði. Þá hafa enn aðrir látið í ljós samstöðu með Bandaríkjaforseta en einn stuðningsmaður Trumps gerði tilraun til að keyra listaverkið niður með traktor um helgina.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.