Erlent

Banamein Noru innvortis blæðingar af völdum svengdar eða streitu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nora Quoirin.
Nora Quoirin. Vísir/EPA
Lögregla í Malasíu segir ekkert saknæmt hafa átt sér stað í tengslum við andlát Noru Quoirin, 15 ára írskrar stúlku með þroskaskerðingu sem hvarf í fjölskyldufríi í landinu í byrjun ágúst. Krufning á líki Noru hefur leitt í ljós að hún lést úr innvortis blæðingum.

Nora fannst látin í fyrradag í um tveggja kílómetra fjarlægð frá hótelinu þar sem fjölskylda hennar dvaldi í bænum Seremban, nærri regnskógunum við borgarmörk Kuala Lumpur. Um 350 manns tóku þátt í umfangsmikilli leit að stúlkunni.

Lík Noru var krufið í gær. Samkvæmt niðurstöðum úr krufningunni lést hún úr innvortis blæðingum af völdum svengdar eða streitu. Þá er talið að Nora hafi látist um tveimur til þremur dögum áður en lík hennar fannst. Eins og áður segir er ekki grunur um að nokkuð saknæmt hafi átt sér stað þrátt fyrir að lík hennar hafi ekki verið í neinum fötum þegar það fannst.

Fjölskylda Noru gaf það út í síðustu viku að hún væri sannfærð um að henni hefði verið rænt. Lögregla rannsakaði málið þó sem mannshvarf en ekki mannrán. Foreldrar Noru sögðust í dag niðurbrotin vegna málsins og minntust dóttur sinnar sem hjartahreinnar og yndislegrar stúlku.

Sýni hafa verið tekin af líki Noru til frekari rannsókna í Malasíu. Foreldrum hennar hefur jafnframt verið heimilað að flytja lík hennar til Bretlands, þar sem þau eru búsett.


Tengdar fréttir

Fundu lík við leitina að Noru

Lögregla í Malasíu fann í dag lík við leit að hinni 15 ára Noru Quoirin, breskum táningi með þroskaskerðingu sem saknað hefur verið síðan í byrjun ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×