Erlent

Fjöl­skyldan sann­færð um að stúlkunni hafi verið rænt

Sylvía Hall skrifar
Fjölskylda Noru óttast að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.
Fjölskylda Noru óttast að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað. Vísir/EPA
Leit að hinni fimmtán ára gömlu Noru Quoirin hefur enn engan árangur borið þrátt fyrir stórt lið leitarmanna nærri hóteli hennar í Malasíu. Stúlkan hvarf af hótelherbergi sínu um síðastliðna helgi og var hvergi sjáanleg þegar fjölskylda hennar vaknaði á sunnudagsmorgun.

Lögreglan í Malasíu hafði gefið það út að hvarf stúlkunnar væri ekki rannsakað sem mannrán þar sem enginn ummerki voru um refsivert athæfi. Fjölskyldan er ósammála því og er sannfærð um að stúlkunni hafi verið rænt af hótelherberginu en gluggi í herbergi stúlkunnar var opinn morguninn sem hún hvarf.

Sjá einnig: Bresk stúlka hvarf í fjölskyldufríi í MalasíuNora er með sérþarfir og telur fjölskylda hennar engar líkur vera á því að hún myndi sjálf yfirgefa herbergi sitt og fara sér að voða. Hún sé ekki eins og fimmtán ára önnur börn, geti ekki hugsað um sjálfa sig og þá sérstaklega ekki á ókunnugum stað. Hún sé að öllum líkindum hrædd þar sem hún skilji ekki hvað sé að eiga sér stað.

„Hún fer aldrei neitt ein. Við höfum enga ástæðu til þess að trúa því að hún hafi ráfað í burtu og sé einfaldlega týnd,“ sagði fjölskyldan í yfirlýsingu. 

Nora ásamt móður sinni.Facebook

Nota rödd móðurinnar við leitina

Stefnt er að því að nota upptökur af rödd móður Noru til þess að aðstoða við leitina. Verður upptakan spiluð í hátölurum nærri svæðinu sem hún hvarf, þar á meðal í Berembun skóglendinu við hótelið sem er við borgarmörk Kuala Lumpur, en Berembun er um 1620 hektarar að stærð.

Yfir 200 manns taka þátt í leitinni og er unnið að því að finna stúlkuna dag og nótt. Skortur á sönnunargögnum hefur gert lögreglu erfitt fyrir en í vikunni fundust fingraför í glugga á hótelinu, þó ekki í herbergi stúlkunnar og systkina hennar, og hefur því lögregla ekki útilokað mannrán.

Fjölskylda stúlkunnar segist þakklát fyrir störf lögreglu við leitina sem og stuðning samfélagsins eftir hvarf hennar. Þau séu enn vongóð um að Nora finnist heil á húfi.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.