Erlent

Segir al-Bas­hir hafa þegið marga milljarða frá Sádi-Aröbum

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Al-Bashir var haldið í búri á meðan málið var tekið fyrir.
Al-Bashir var haldið í búri á meðan málið var tekið fyrir. EPA-EFE
Súdanskur rannsóknarlögreglumaður bar í dag vitni fyrir dómi og sagði að Omar al-Bashir, fyrrverandi forseti Súdan, hafi þegið margar milljónir Bandaríkjadala í gjöf frá Sádi-Aröbum. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Al-Bashir var hrakinn frá völdum í byrjun apríl en hann hafði setið sem forseti landsins frá árinu 1989. Hann hefur síðan setið í fangelsi í Kobar en kom fyrir dóm á mánudag vegna ákæra um peningaþvætti.

Um miðjan apríl fundust skjalatöskur fullar af reiðufé og var þar nokkra gjaldmiðla að finna. Alls fundust um 350 þúsund Bandaríkjadalir, sex milljónir Evra og fimm milljarðar súdanskra punda. Heildarupphæðin nemur um 1,5 milljörðum íslenskra króna.

Al-Bashir er meðal annars ákærður fyrir peningaþvætti.EPA-EFE
Al-Bashir var í dómssalnum þegar rannsóknarlögreglumaðurinn lagði fram ásakanirnar en hann svaraði þeim ekki. Honum var haldið í búri á meðan hann var inni í dómssalnum. Hann tók aðeins til máls tvisvar sinnum á meðan á réttarhöldunum stóð, þegar hann sagði til nafns og svaraði því hvar hann héldi nú til.

Ahmed Ali Mohamed, rannsóknarlögreglumaðurinn, sagði í dómssal að al-Bashir hafi játað að hafa þegið 25 milljónir dollara frá Mohammed Bin Salman, krónprinsi Sádi-Arabíu. Það nemur um 3,1 milljörðum íslenskra króna. Mohamed bætti því við að al-Bashir hafi þegið fjármagn frá fleiri Sádi-Aröbum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×