Erlent

Allsherjarverkfall í mótmælaskyni lamar Hong Kong

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mótmælendur spreyjuðu meðal annars umferðarljós með svörtu spreyji.
Mótmælendur spreyjuðu meðal annars umferðarljós með svörtu spreyji. AP/Kin Cheung
Mótmælendur í Hong Kong hófu í dag verkfallsaðgerðir sem miða að því að lama borgina í mótmælaskyni við yfirvöld í Kína. Um 200 flugferðum frá flugvellinum í Hong Kong hefur verið aflýst vegna verkfallsins.

Fréttir herma að um 14 þúsund manns hafi ákveðið að taka þátt í mótmælunum, þar á meðal flugmenn, kennarar, byggingarverkamenn, verkfræðingar. Þá lokuðu mótmælendur lestarleiðum í Hong Kong með því að halda dyrum lestanna opnum og koma þar með í veg fyrir að lestirnar gætu lagt af stað.

Mótmælendur stóðu einnig fyrir umferðartöfum með því að hefta flæði umferðar inn í borgina á háannatíma. Margir sögðust einnig ætla að taka þátt í mótmælunum með því að hringja sig inn veika í dag. Einn var fluttur á sjúkrahús eftir að ökumaður bíls reyndi að brjóta sér leið í gegnum farartálma, líkt og sjá má á myndbandi hér að neðan.

 

Mótmælin í Hong Kong hafa staðið yfir í níu vikur, allt frá því að umdeilt framsalsfrumvar yfirvalda í Kína var lagt fram. Mótmælin hafa þó færst yfir í það að vera barátta íbúa í Hong Kong fyrir því að yfirvöld í Kína virði þau réttindi og frelsi sem íbúarnir hafa notið.

Carrie Lam, æðsti stjórnandi Hong Kong, hefur varað mótmælendur við því með frekari mótmælum og verkföllum séu mótmælendur komnir á „hættulegar slóðir.“

Á laugardag lentu mótmælendur í útistöðum við óeirðalögreglu sem beitti táragasi, piparúða og valdi gegn mótmælendum á nokkrum stöðum innan borgarinnar Hong Kong. Tuttugu voru handteknir en mótmælendur segja lögreglu beita harðari aðgerðum nú en áður til þess að glíma við mótmælin.


Tengdar fréttir

Flugeldum skotið á mótmælendur í Hong Kong

Aukin harka hefur færst í viðbrögð við mótmælum í borginni undanfarna daga. Flugeldum var skotið úr bíl inn í hóp mótmælenda við lögreglustöð í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×