Erlent

Flugeldum skotið á mótmælendur í Hong Kong

Kjartan Kjartansson skrifar
Mótmælendur hafa krafist þess að félögum þeirra sem voru handteknir um helgina verði sleppt.
Mótmælendur hafa krafist þess að félögum þeirra sem voru handteknir um helgina verði sleppt. AP/Vincent Yu
Að minnsta kosti tíu mótmælendur í Hong Kong særðust þegar flugeldum var skotið á hóp þeirra úr bíl við lögreglustöð í borginni. Aukin harka hefur færst í mótmæli lýðræðissinna sem staðið hafa yfir undanfarnar vikur og hefur lögreglan verið sökuð um að beita óhóflegu valdi gegnum mótmælendum.

Hópur mótmælenda var saman kominn fyrir utan lögreglustöð í Tin Shui Wai-hverfi til stuðnings aðgerðasinnum sem voru handteknir og vistaðir í stöðinni þegar flugeldum var skotið inn í mannfjöldann úr bíl sem var ekið fram hjá, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Lögreglan segist fordæma verknaðinn og rannsakar hann.

Fjörutíu mótmælendur hafa verið ákærðir fyrir óeirðir vegna mótmæla á sunnudag þar sem til átaka kom á milli þeirra og lögreglu. Þeir gætu átt yfir höfði sér allt að tíu ára fangelsisdóma.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem mótmælendur í Hong Kong hafa orðið fyrir árás. Hvítklæddir menn beittu mótmælendur ofbeldi í Yuen Long-hverfi fyrr í þessum mánuði. Mótmælendur telja að yfirvöld hafi fengið félaga í glæpagengjum til að ráðast á sig. Því hafna stjórnvöld og lögregla alfarið.

Aukin harka hefur einkennt viðbrögð yfirvalda við mótmælunum undanfarna daga. Fyrir utan handtökurnar um helgina hafa myndir sýnt lögreglumenn ata skotvopnum að óvopnuðum mótmælendum. 

Lögreglumaður beinir haglabyssu að óvopnuðum mótmælendum nærri Kwai Chung-lögreglustöðinni í gær.AP/Steve Leung

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×