Erlent

Langþráð reynslulausn orðin að veruleika

Sylvía Hall skrifar
Cyntoia Brown.
Cyntoia Brown. Vísir/AP
Hinni þrítugu Cyntoia Brown var sleppt úr fangelsi í dag á reynslulausn eftir að hafa hlotið náðun frá Bill Haslam ríkisstjóra Tennessee í janúar. Hún hefur setið í fangelsi í fimmtán ár en stjörnur á borð við Kim Kardashian og Rihanna vöktu athygli á máli hennar árið 2017.

Brown var aðeins sextán ára gömul þegar hún skaut Johnny Mitchell Allen til bana árið 2004. Allen, sem var 43 ára gamall, hafði borgað fyrir kynmök með henni eftir að hún var neydd í vændi af fyrrverandi sambýlismanni sínum. Hún var dæmd í í lífstíðarfangelsi fyrir morðið.

Sjá einnig: Konan sem myrti nauðgara sinn og stjörnurnar vilja fá lausa úr fangelsi

Brown hefur alla tíð haldið því fram að um sjálfsvörn hafi verið að ræða. Hún hafi séð Allen teygja sig undir rúmið og hélt hann væri að leita að byssu. Hún hafi því náð í byssu sem hún geymdi í veski sínu og skotið hann. Saksóknarar héldu því fram að rán hefði verið ásetningur Brown en sambýlismaður hennar hafði skipað henni að koma til baka með peninga.

Ríkisstjórinn hefur sagt að mál Brown hafi verið „flókinn harmleikur“. Hún hafi framið hræðilegan glæp aðeins sextán ára gömul en lífstíðardómur hafi verið óþarflega hörð refsing. Jafnframt hafi hún tekið stórkostleg skref í átt að betra lífi en hún stundaði nám á meðan fangelsisvistinni stóð og mun ljúka bakkalárprófi fyrir árslok.


Tengdar fréttir

Kim Kardashian og Trump ræða fangelsismál

Raunveruleikasjónvarpsstjarnan Kim Kardashian West er nú stödd í Hvíta húsinu þar sem hún mun ræða við fyrrverandi kollega sinn, Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, um mögulegar umbætur í fangelsismálum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×