Erlent

Heimsfræg YouTube-stjarna lést í svifvængjaflugslysi

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Thompson var 38 ára að aldri.
Thompson var 38 ára að aldri. Vísir/Getty
YouTube-stjarnan Grant Thompson, sem var heilinn á bak við rásina King of Random (Konungur hins handahófskennda) er látinn. Hann lést í slysi við svifvængjaflug (e. paragliding) í Utah í Bandaríkjunum síðastliðinn mánudag.

Hinn 38 ára gamli Thompson hélt úti YouTube-rás þar sem hann brallaði ýmislegt áhugavert og tók upp á ótrúlegustu hlutum. Voru þar vísindalegar tilraunir í fyrirrúmi. Meðal þess sem Thompson kannaði á ferli sínum var hvaða áhrif nitur í vökvaformi hefur á andlit manns, hvernig hægt væri að búa til Lego-nammi og hvað gerðist nú eiginlega ef maður syði sjóinn.

Meira en 11 milljónir manna voru áskrifendur að YouTube-rás Thompson.

Tilkynnt var um andlát Thompson á Instagram síðu hans, þar sem aðdáendur hans eru hvattir til þess að gera eitt handahófskennt góðverk til þess að heiðra minningu hans.

„Arfleið Grants mun lifa áfram á rásinni og því hnattræna samfélagi sem hann skapaði,“ segir meðal annars í færslunni þar sem tilkynnt var um andlát hans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×