Erlent

Þekkt baráttukona hinseginréttinda myrt í Pétursborg

Kjartan Kjartansson skrifar
Hinsegin fólk á undir högg að sækja í Rússlandi. Frá mótmælum hinsegin fólks í Moskvu sem lögregla stöðvaði árið 2015.
Hinsegin fólk á undir högg að sækja í Rússlandi. Frá mótmælum hinsegin fólks í Moskvu sem lögregla stöðvaði árið 2015. Vísir/EPA
Jelena Grigoryeva, þekkt baráttukona fyrir réttindum hinsegin fólks í Rússlands, fannst myrt í Pétursborg á sunnudag. Lögreglan segir að fjöldi stungusára hafi verið á líkinu sem fannst í runnum nærri heimili hennar. Þá voru merki um að hún hefði verið kyrkt.

Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC hafði Grigoryeva, sem var 41 árs gömul, reglulega fengið líflátshótanir og verið beitt ofbeldi vegna baráttu sinnar. Hún hefur einnig látið til sín taka gegn innlimun Rússa á Krímskaga, illri meðferð á föngum og til stuðnings ýmsum öðrum mannréttindamálum.

Einn hefur verið handtekinn vegna dauða Grigoryevu. Ekki er óalgengt að baráttufólk og blaðamenn séu myrtir í Rússlandi. Í janúar í fyrra fannst Konstantín Sinitsyn, stjórnarandstæðingur, látinn nærri heimili sínu í Pétursborg af völdum höfuðáverka.

Tugir aðgerðasinna fyrir réttindum hinsegin fólks voru handteknir í borginni í ágúst í fyrra þegar þeir stóðu fyrir mótmælum til að krefjast viðurkenningu réttinda þeirra. Lög í Rússlandi bana dreifingu á því sem stjórnvöld kalla „samkynhneigðum áróðri“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×